Meirihluti vill áfram samræmd próf

mbl.is/Hari

Kannað var viðhorf skólastjórnenda í garð samræmdra könnunarprófa í tengslum við samræmd könnunarpróf í fjórða og sjöunda bekk í haust. Í ljós kom að 59% eru hlynnt því að halda könnunarprófunum í núverandi eða breyttri mynd en 41% er hlynnt því að prófin verði lögð niður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Menntamálastofnunar varðandi samræmd próf í 4. og 7. bekk.

Skoðað var sérstaklega hve langan tíma nemendur nýttu í prófunum. Bersýnilega kom í ljós að allar áhyggjur varðandi of skamman próftíma voru óþarfar. Langflestir luku prófi vel innan tímamarka. Í 7. bekk er almennur próftími 80 mínútur en algengast er að nemendur ljúki á um 60 mínútum eða skemur. Í 4. bekk er próftíminn 70 mínútur en nemendur nýta almennt 50 til 60 mínútur við próftöku.

Athyglisvert er að nemendur með stuðningsúrræði, sem hafa fengið úthlutaðan viðbótartíma til próftöku, eru litlu lengur að ljúka prófi en nemendur án stuðnings. Fram kemur að um 5% nemenda í 4. bekk voru enn í prófi þegar 75 mínútur voru liðnar af próftíma þrátt fyrir að um 30% þeirra hefðu heimild til að nýta 100 mínútur í prófinu.

Almennt höfðu nemendur í 7. bekk 80 mínútur til að ljúka prófunum en nemendur í 4. bekk 70 mínútur. Allir þeir sem skráðir voru með stuðningsúrræði höfðu 30 mínútur til viðbótar við hefðbundinn próftíma.

Innan við 5% nýta lengri tíma

Í íslenskuprófi í 7. bekk eru innan við 5% nemenda sem nýta 85 mínútur eða meira þrátt fyrir að um 38% nemenda séu skráðir með stuðningsúrræði og hafi heimild til að nýta allt að 115 mínútur í prófinu. Nýting á próftíma í stærðfræði hjá 7. bekk er aðeins meiri en þar nýta 5% nemenda 92 mínútur eða meira.

Í 4. bekk ljúka 50% nemenda íslenskuprófi á 50 mínútum eða skemur. Þrátt fyrir að um 33% nemenda 4. bekkjar hafi heimild til að nýta próftíma í 100 mínútur eru innan við 5% sem nýta meira en 75 mínútur í próftökuna. Á það bæði við um íslensku og stærðfræði hjá þessum árgangi.

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild

Allajafna er þátttaka nemenda í samræmdum könnunarprófum góð. Skólastjórnendur geta sótt um að nemendur fái að þreyta samræmd könnunarpróf með stuðningsúrræðum, þau algengustu eru lengdur próftími og upplestur á spurningum og lestextum. 

Þátttaka í prófunum var mjög góð og svipuð og undanfarin ár. Í 7. bekk þreyttu 4396 nemendur bæði prófin, 57 nemendur þreyttu annað prófanna og 340 nemendur þreyttu ekkert próf. Í 4. bekk þreyttu 4090 nemendur bæði prófin, 56 nemendur þreyttu annað prófanna og 351 nemandi þreytti ekkert próf.

Hér er hægt að skoða dreifingu einkunna eftir skólum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert