Ölvaður ökumaður bakkaði á staur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Afskipti voru höfð af ökumanni bifreiðar í miðbæ Reykjavíkur laust fyrir klukkan hálfþrjú í nótt eftir að tilkynnt hafði verið um umferðaróhapp en maðurinn hafði bakkað á staur.

Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Staurinn var óskemmdur en minniháttar skemmdir urðu á bifreiðinni. Maðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sautján ára ökumaður var handtekinn á Suðurlandsbraut um hálftvöleytið í nótt grunaður um ölvun við akstur.

Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynningu til Barnaverndar. Pilturinn var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Tilkynnt var um innbrot í bifreið í Vesturbænum laust fyrir klukkan fimm. Kistulok og hurðir bifreiðarinnar voru opnar og munir úr henni á götunni. Ekki náðist í eiganda og því er ekki vitað hverju var stolið.

Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var bifreið stöðvuð á Geirsgötu. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni sýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert