Þessi brjálaða bylgja

Fríða Ísberg á tröppum Gröndalshúss, þar sem hún er með …
Fríða Ísberg á tröppum Gröndalshúss, þar sem hún er með vinnuaðstöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Margir vilja tengja þessa bók saman við samfélagsmiðla og ég get hálfvegis tekið undir það, en af svolitlum trega þar sem það er ekki minnst einu orði á samfélagsmiðla í bókinni,“ segir Fríða Ísberg um nýja ljóðabók sína, Leðurjakkaveður. 

„En þetta tvennt tengist auðvitað að því leytinu til að þessi brjálaða bylgja að deila öllum mögulegum hlutum með öðrum er komin þaðan. Glansmyndin og sársaukinn vega salt á samfélagsmiðlum, og tvískiptingin þannig sú sama og er í bókinni; einhvers konar útþensla og svo einhvers konar sannleikur. Mengin eru tengd; fólk hefur það ýmist flott og fínt eða ekki flott og beinlínis slæmt.“

Fríða segir samfélagsmiðla hafa ýtt undir það fyrir áratug eða svo að hver og einn einstaklingur fékk fjölmiðlavald. Og það á miklum umbrotatímum í lífi þessarar þjóðar, rétt eftir hrun. „Þarna gafst einstaklingum færi á að sprengja ákveðna glansmynd sem fylgdi lífi okkar fyrir hrun; öll heyrðum við átakanlegar og dramatískar sögur af fólki úti í bæ og samfélagsmiðlar margfölduðu þær.“

Lagkaka gagnvart lesandanum

Svo kemur að því að kryfja Leðurjakkaveður. Og þar er spegillinn undir og yfir og allt um kring. „Spegillinn sker ljóðmælandann í tvennt – í égið og þúið. Það er hið innra og ytra sjálf. Fyrsti kaflinn heitir 1.p og þar er égið að reyna að útskýra tilurð leðurjakkans og er orðið langþreytt á að ná engri tengingu við annað fólk, það vill klæða sig úr brynjunni og vörninni, úr leðurjakkanum. Í öðrum kafla, 2.p., tekur þúið við. Það er töffarinn, í útrás, segist vera eilífðaratóm, heilsteypt og ódeilanlegt. Í þriðja hluta bókarinnar, Við, mást línurnar, þúið fer allt í einu í útrásareinlægni og égið fer að skilja að það þarf leðurjakkann líka.“

Fríða segir ljóðformið ákaflega spennandi fyrir átök af þessu tagi. Ljóðabókin sé oft lesin í senn sem skriftastóll og játningarform. „Ljóðmælandanum og ljóðskáldinu er gjarnan splæst saman. Svo að úr verður einhvers konar lagkaka gagnvart lesandanum; er þetta skáldið að vera einlægt eða er ljóðmælandinn bara enn einn leðurjakkinn?“

Nánar er rætt við Fríðu Ísberg í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert