Vilja álit Hæstaréttar á Ísafold

Hjúkrunarheimilið var tekið í notkun árið 2013 í Garðabæ og …
Hjúkrunarheimilið var tekið í notkun árið 2013 í Garðabæ og hefur verið tekist á um daggjöld vegna rekstrar tvö fyrstu árin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í liðinni viku að fela lögmanni bæjarins að leita eftir heimild Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar í máli Garðabæjar gegn ríkinu vegna starfsemi hjúkrunarheimilisins Ísafoldar. Þar var ríkið sýknað af kröfum Garðabæjar um bætur vegna uppsafnaðs taps af rekstri hjúkrunarheimilisins á árunum 2013-15. Dómur héraðsdóms var því staðfestur.

Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir að málið hafi verið rætt á stjórnarfundi SFV á þriðjudag. Niðurstaða dómsins valdi vonbrigðum þó að hún hafi ekki komið algerlega á óvart miðað við niðurstöðu Héraðsdóms. Hann segir að í ár séu yfir 80% hjúkrunarheimila rekin með tapi. 

Daggjöld frá ríkinu dugðu ekki fyrir rekstri

Garðabær höfðaði málið og gerði fjárkröfu á hendur ríkinu sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri Ísafoldar á árunum 2013 til 2015 þar sem daggjöld frá ríkinu dugðu ekki fyrir rekstrarkostnaði. Landsréttur taldi að samningur aðila frá því í maí 2010 yrði ekki túlkaður með þeim hætti að ríkið hefði með honum skuldbundið sig til að greiða rekstrarkostnað hjúkrunarheimilisins.

Jafnframt taldi Landsréttur að þótt hjúkrunarheimilum hefðu verið markaðar fjárveitingar í fjárlögum og fjáraukalögum og Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingum Íslands hefði verið falið það hlutverk að tryggja hjúkrunarheimilum rekstrarfé í formi daggjalda á grundvelli laga og reglugerða á grundvelli þeirra og gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands, yrði ekki ráðið af þeim réttarheimildum að í þeim fælist skuldbinding ríkisins til þess að tryggja rekstraraðilum hjúkrunarheimila algert skaðleysi af rekstrinum.

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði axlað skyldur sínar lögum samkvæmt gagnvart hjúkrunarheimilinu Ísafold með því að tryggja hjúkrunarheimilum fjárveitingar á fjárlögum fyrir árin 2013 til 2015 og leggja hjúkrunarheimilinu til daggjöld samkvæmt reiknilíkani um skiptingu fjárveitinga frá Alþingi til hjúkrunarheimila, í samræmi við reglugerðir og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, eins og segir í útdrætti Landsréttar með dómnum 22. nóvember.

Pétur Magnússon segir að kröfur Garðabæjar hafi snúist um kröfur á hendur ríkinu vegna ófullnægjandi greiðslna ríkisins. Hann segir stjórn SFV telja dóminn lýsa þeirri stöðu að ríkinu sé heimilt að ákveða fjárveitingar til þjónustu hjúkrunarheimila með annarri hendinni, en setja kröfur á starfsemina með hinni hendinni og ekki þurfi að vera samhengi þar á milli.

Um sé að ræða hagsmunamál sem hjúkrunarheimili hafi barist fyrir í sínum rekstri, en samningsstaðan sé erfið þegar viðsemjandinn sé aðeins einn, íslenska ríkið. Með kröfum á þjónustuaðila sé eðlilegt og réttlátt að fjármagn dugi til að uppfylla kröfur um rekstur.

Sorgleg staðreynd

Spurður um stöðuna í rekstri hjúkrunarheimila segir Pétur að staðan sé mjög erfið. Óformleg könnun sýni að 80-90% þeirra verði rekin með tapi á þessu ári. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að styrkja eigi rekstrargrunn hjúkrunarheimila, en það hafi ekki verið gert, þvert á móti hafi hann verið skertur. 

Árið 2016 hafi rekstragrunnur hjúkrunarheimila síðast verið lagaður eftir langvarandi niðurskurð frá efnahagskreppunni 2008. Fyrir þremur árum hafi stjórnendur heimilanna því loksins talið reksturinn vera kominn í þokkalega réttlátt starfsumhverfi en það hafi nánast allt verið tekið til baka. Það sé sorgleg staðreynd miðað við góðærið í samfélaginu síðustu ár. Hjúkrunarheimili hafi ekki fengið að njóta þess.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert