Höggva eigið tré í jólaskógi

Spáð í jólatré.
Spáð í jólatré. mbl.is/Golli

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur farið vel af stað. Selt er á tveimur stöðum; við Elliðavatn í Heiðmörk, þar sem fólk getur keypt tré með hefðbundna laginu, og á Hólmsheiði, þar sem fólki gefst kostur á að velja sér tré úr jólaskógi félagsins og höggva sjálft.

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins, hafði í nógu að snúast er blaðamaður náði tali af honum síðdegis í gær. „Þetta gengur alveg frábærlega og ekki skemmir veðrið fyrir. Fólk nýtur sín algjörlega hér í náttúrunni og fallegri vetrarsólinni,“ segir hann.

Hann segir að sú hefð hafi skapast hjá mörgum fjölskyldum að höggva eigið tré í jólaskóginum og að ívið fleiri tré séu seld þar en í Heiðmörk. „Þetta er ákveðið hópefli því fólk þarf auðvitað að koma sér saman um tré og hjálpast að,“ segir Helgi enn fremur í Morgunblaðinu í dag.

Öll tré Skógræktarfélagsins eru innlend og mestmegnis greni úr Heiðmörk, en til að anna eftirspurn fékk félagið einnig hundrað grenitré frá Þorgerðarstöðum í Fljótshlíð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert