Lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm verða endurskoðuð

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/​Hari

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að ráðast í endurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð annars vegar og lögum um Landsdóm hins vegar. Tillagan var lögð fram af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins, að á undanförnum áratugum hafi lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm sætt gagnrýni hér á landi í ljósi réttarþróunar í sakamálaréttarfari. Slíka gagnrýni sé til að mynda að finna í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda frá 1999, skýrslu um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu frá 2009 og í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010.

„Árið 2010 ályktaði Alþingi að slík endurskoðun skyldi fara fram á vegum Alþingis en ekki varð af þeirri endurskoðun. Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir um breytingar á stjórnarskrá á vettvangi formanna stjórnmálaflokka hefur málefnið verið rætt og ljóst að rík þörf er á endurskoðun laganna.

Endurskoðun laganna mun meðal annars taka til skýrleika refsiákvæða um embættisbrot, aðdraganda ákæru, svo sem frumkvæði að rannsókn á embættisfærslum, umgjörð máls og hlutverk þingnefnda í því sambandi, og skipan Landsdóms. Forsætisráðherra mun í samráði við dómsmálaráðherra fela sérfræðingi að leiða vinnuna og standa vonir til þess að henni verði lokið á haustmánuðum,“ segir ráðuneytið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert