Á þriðja hundrað manns tóku þátt í bænastund

Kafarar að störfum í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi.
Kafarar að störfum í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á þriðja hundrað manns mættu á samveru- og bænastund sem haldin var í Hafnarfjarðarkirkju í dag vegna slyssins við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöld þegar bíll fór fram af Óseyrarbryggju. 

Þrír piltar voru í bílnum og eru tveir þeirra alvarlega slasaðir á gjörgæslu en sá þriðji liggur á annarri deild spítalans og er líðan hans eftir atvikum. 

Samkvæmt lögreglu er einn drengjanna á grunnskólaaldri, en hinir tveir á framhaldsskólaaldri. Viðbragðshópur Rauða krossins var virkjaður i gær og hafa viðbragðsaðilar fundað í morgun. Þá er starfsfólk skólanna sem piltarnir ganga í að undirbúa hvernig tekið verður á móti nemendum eftir helgina. 

Jón Helgi Þórarinsson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju, segir í samtali við mbl.is að samverustundin í dag hafi verið afar falleg. 

„Mætingin var mjög góð. Kirkjan var full og á þriðja hundrað manns komu. Það var mikill samhugur og hlýja. Það mættu bæði unglingar og fullorðnir, félagarnir, fólk úr bænum og ættingjar. Fólk spjallaði saman, spjallaði við bæði presta og fulltrúa Rauða krossins,“ segir Jón. 

„Það var mjög notalegt að eiga þessa stund, það var gott nesti út í þessar aðstæður og næstu daga. Við spjölluðum um þetta og stöðuna núna, fórum yfir hvað gerist í svona áföllum. Við reyndum að styðja unga fólkið og hvernig eldra fólkið getur stutt þau. Svo heldur þetta áfram í skólunum eftir helgi þar sem það verður stuðningur við þá sem þekkja til,“ segir Jón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert