Bera út boðskap — ekki foringjadýrkun

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, segir mikil gleðitíðindi að tekin hafi verið ákvörðun á flokksfundi í dag um að flokkurinn bjóði fram í öllum kjördæmum í næstu þingkosningum.

Uppstilling á lista flokksins er í höndum sérstakrar nefndar, sem raðað er í með slembivali. Sjálfur segist Gunnar ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann gefi kost á sér. „Ég hef ekkert pælt í því,“ segir hann, en útilokar ekki. Gunnar segir erfitt verk bíða flokksins sem leggi nú í langa kosningabaráttu með það fyrir augum að kynna stefnu sína fyrir kjósendum. „Við þurfum til dæmis að styrkja stöðu okkar umtalsvert á landsbyggðinni,“ segir Gunnar.

Núverandi kjörtímabil til Alþingis rennur út í október á næsta ári, en allt eins er búist við að kosið verði um vorið eins og hefð er fyrir.

Löng vegferð fram undan 

Spurður hvort hann telji heppilegt að einbeita sér að stefnumálum án þess að hafa skýra forystu segir Gunnar svo einmitt vera. „Það er svo nauðsynlegt að losna út úr þessu foringjaræði sem einkennir stjórnmálaflokka á Íslandi,“ segir Gunnar Smári og bætir við að hugmyndaflug íslenskra stjórnmálaflokka er kemur að því að breiða út boðskap nái ekki lengra en að slengja andliti formannsins á strætóskýli.

„Við viljum ræða grundvallarmálin í samfélaginu og þurfum langan tíma til að koma okkar sýn í lýðræðis-, kvóta- og auðlindamálum á framfæri,“ segir Gunnar.

Nýjustu kannanir mæla Sósíalistaflokkinn með 3,3% stuðning, sem myndi ekki nægja til að fá mann kjörinn á þing. Þrátt fyrir það er Gunnar Smári brattur. „Flokkurinn hefur áður mælst með mann á þingi í skoðanakönnunum, og ég held að það hafi ekki áður gerst að flokkur sem ekki hafði fulltrúa á þingi mælist með þingmenn á miðju kjörtímabili,“ segir Gunnar.

Þá verði að hafa í huga að flokkurinn hafi náð góðum árangri í borgarstjórnarkosningum árið 2018 og hlotið 6,4% atkvæða, fleiri en Miðflokkur, Flokkur fólksins, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, þrátt fyrir að hafa varla mælst með nokkurt fylgi mánuði fyrir kosningar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert