Betra að vera á staðnum og ná að hjálpa til

Kristín Guðmunda Pétursdóttir fyrir utan Gunnukaffi á Flateyri í gær. …
Kristín Guðmunda Pétursdóttir fyrir utan Gunnukaffi á Flateyri í gær. Þar hafa Flateyringar safnast saman og nært sig á líkama og sál undanfarna daga. mbl.is/RAX

„Ég var ekki hér á Flateyri þegar flóðið féll fyrir 25 árum. Þessi upplifun var allt öðruvísi. Maður gat hjálpað, maður vissi um allt sem var að gerast og gat hjálpað til. Sú tilfinning var góð, því ég veit hvernig hin tilfinningin er, að vera einhvers staðar í burtu þar sem þú veist ekkert hvað er að gerast, hvernig veðrið er eða hvar fólkið er. Að því leyti til var gott að vera á staðnum,“ segir Kristín Guðmunda Pétursdóttir, sem rekur gistiheimili á Flateyri.

Kristín var úti á gönguskíðum með vinkonum sínum skömmu áður en flóðin féllu á þriðjudagskvöld, aðeins að viðra sig, en var síðan sest heima við kertaljós að setja inn mynd úr gönguskíðaferðinni á Instagram-síðu gistiheimilisins þegar hún heyrði drunurnar og sá síðan kófið koma upp fyrir varnargarðinn.

„Ég hugsaði bara, nei, þetta er ekki að gerast,“ segir Kristín sem hljóp strax og vakti manninn sinn áður en hún hljóp inn í herbergi hjá syni sínum og beið þar í smástund á meðan lætin gengu yfir. Því næst tók við ótti, þar sem dóttir hennar var ekki heima og var heldur ekki stödd á heimili vinkonu sinnar, hvar hún átti að vera komin inn. Fljótlega komu vinkonurnar þó hlaupandi heim, heilar á húfi.

Á fullu allt frá flóðum

„En svo bara byrjaði þetta, að hringja í þennan og hinn. Svo heyrðist frá Suðureyri og vitandi af ættingjum þar og vinum þar, hausinn var bara á milljón,“ segir Kristín, sem dreif sig í að taka saman hluti sem einhvern í neyð gæti vantað, föt, rafhlöður, kaffi. Síðan þá segist Kristín hafa verið „á fullu“ við að hjálpa til við að vinna úr stöðunni eins og aðrir íbúar á Flateyri.

Hún telur að um það bil 15-20 mínútur hafi liðið frá flóðinu úr Skollahvilft og þar til flóð féll úr Innra-Bæjargili, en er þó ekki alveg viss. Hún segir þó að það hljóti að hafa verið einhver tími þar sem björgunarsveitin var orðin fullgölluð og komin niður að höfn til að skoða aðstæður þar.

„Það má kannski þakka fyrra flóðinu að það voru allir komnir út og voru svo fljótir upp eftir, ef maður má segja þannig, ég veit það ekki,“ segir Kristín.

Samhugur að utan

„Við erum öll frekar opin og knúsum hvert annað og tölum saman og allir þeir sem hafa komið hér og aðstoðað okkur,“ segir Kristín og bætir við að einnig sé gott að finna samhug landsmanna með þeim þolendum hamfaranna sem hafa nú orðið fyrir tjóni og áföllum.

Einnig segir Kristín að hlýjar kveðjur streymi að á samfélagsmiðlum, frá erlendum ferðamönnum sem hafi gist hjá henni á Litla-Býli og að það þyki henni vænt um. „Alls staðar að úr heiminum og alls konar kveður. Það er bara rosalega gott, þó að maður geti ekki svarað öllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert