Sósíalistaflokkurinn undirbýr framboð til Alþingis

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands. Flokkurinn stefnir á framboð …
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands. Flokkurinn stefnir á framboð í næstu alþingiskosningum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sósíalistaflokkur Íslands samþykkti á félagsfundi í dag að fela kjörstjórn flokksins að skipa kosningastjórn hið fyrsta til að undirbúa framboð flokksins til næstu alþingiskosninga. Flokkurinn var stofnaður 1. maí árið 2017 af Gunnari Smára Egilssyni, blaðamanni og fyrrverandi ritstjóra.

Í tilkynningu frá flokknum segir að framboð Sósíalistaflokksins sé nauðsynlegt til að koma hagsmuna- og réttlætisbaráttu verkalýðsins og annarra fátækra og kúgaðra hópa á dagskrá landsmálanna. „Framboð Sósíalistaflokksins skal verða borið fram af hinum kúguðu, stefna flokksins skal vera kröfugerð hinna kúguðu og kosningabarátta flokksins skal miða að því að virkja hin kúguðu til þátttöku, upprisu og aðgerða,“ segir í tilkynningunni. 

Þá telur flokkurinn að stjórnmálin hafi brugðist almenningi og alþýðunni. Alþýðan sjálf þurfi að rísa upp og taka völdin af hinum fáu. „Við erum fjöldinn og okkar er valdið,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Sam­kvæmt lög­um um stjórn­skip­an lýk­ur yf­ir­stand­andi kjör­tíma­bili í lok októ­ber 2021. Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra mun ræða við for­menn allra flokka á Alþingi í vet­ur um það hvenær næstu þing­kosn­ing­ar fara fram, til að mynda hvort gengið yrði til kosninga að vori. 

Í þjóðarpúlsi Gallup sem greint var frá í upphafi árs mældist Sósí­al­ista­flokk­ur­inn með 3,3% stuðning og myndi því ekki fá kjör­inn þing­mann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert