Áföll hafi sýnt fram á styrk og veikleika

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að áföll á borð við gjaldþrot WOW air í fyrra hafi sýnt fram á styrk samfélagins en að önnur áföll, svo sem ofsaveður sem geisaði í desember á síðasta ári, hafi afhjúpað veikleika þess.

Þetta kom fram í ræðu Sigurðar á fyrsta þingfundi Alþingis eftir jólahlé í dag, þar sem leiðtogar stjórnmálaflokka fóru yfir um stöðuna í stjórnmálunum.

Talað um raforku sem óþarfa lúxus

Sagði Sigurður að þegar allt gengi vel og allar ytri aðstæður væru hagfelldar yrði það stundum þannig að við gleymdum að tryggja okkur gagnvart erfiðari tímum.  Nefndi hann í því samhengi raforkumálin og sagði hann að umræða um raforkumál á Íslandi hefði síðustu ár snúist um að nóg hefði verið gert í þeim málum og sagði að að mörgu leyti hefði verið talað um raforkuna sem einhvern „óþarfa lúxus“.  

Ferðir um Norðurland eftir óveðrið í desember hefðu þó sýnt fram á að fólk hefði fundið fyrir óöryggi.

Sagði Sigurður ríkisstjórnina nú vera í stakk búna til að gera áætlanir að úrbótum til lengri og skemmri tíma vegna þess jafnvægis sem ríkisfjármálin hefðu náð, og standa við þær. 

Auðlindaákvæðið eitt það mikilvægasta

Þá kom Sigurður inn á tillögur að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins og sagði auðlindaákvæðið vera eitt það mikilvægasta þar.

Fullyrti hann að íslenskur sjávarútvegur væri í fremstu röð í heiminum hvað varðaði ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og sagði grundvöllinn að þeirri ábyrgu nýtingu vera kvótakerfið. 

Sagði hann Framsókn leggja mikla áherslu á ákvæði um að auðlindir yrðu hluti af stjórnarskránni til að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum í sjó og á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert