Brotnaði niður á íbúafundinum

„Það er bara það að við viljum læra af þessu …
„Það er bara það að við viljum læra af þessu og viljum nýta þennan meðbyr þannig að það verði eitthvað gert. Það er aðalatriðið. Nú er bara að byggja okkur upp og fara fulla ferð áfram,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir, íbúi á Flateyri sem sótti íbúafundinn í kvöld. mbl.is/RAX

„Við kannski fengum ekki öllum spurningum okkar svarað en við gátum allavega komið okkar punktum áleiðis. Núna þýðir ekkert að vera með einhverjar ásakanir,“ segir Steinunn Guðný Einarsdóttir, íbúi á Flateyri, spurð um íbúa­fund­ sem haldinn var á Flat­eyri til þess að fara yfir stöðuna og svara spurn­ing­um íbúa eft­ir snjóflóðin sem féllu sl. þriðju­dags­kvöld.

„Það er bara það að við viljum læra af þessu og viljum nýta þennan meðbyr þannig að það verði eitthvað gert. Það er aðalatriðið. Nú er bara að byggja okkur upp og fara fulla ferð áfram.“ Segir Steinunn að fundurinn hafi verið afar tilfinningaríkur fyrir marga en sjálf gat hún ekki varist tárum og brotnaði niður á fundinum.

„Ég viðurkenni að ég ætlaði ekki að brotna niður þarna. En það er búið að vera mikið um að vera síðustu daga. Það var fínt að hafa þennan fund. Maður er enn að meðtaka þetta,“ segir Steinunn og bætir við að hún hafi varið fyrstu nóttinni í eigin húsi í gær, en hús hennar stendur við Ólafstún, gegnt húsinu sem varð fyrir snjóflóðinu úr Innra-Bæjargili.

Hér sést Steinunn á föstudaginn við hlið einbýlishúss fjölskyldu sinnar …
Hér sést Steinunn á föstudaginn við hlið einbýlishúss fjölskyldu sinnar við Ólafstún á Flateyri. mbl.is/RAX

Ekki komin á jörðina aftur

„Það eru enn ummerki hérna. Bílar á hvolfi í kring og ónýtt hús og maður er einhvernveginn ekki kominn á jörðina aftur,“ segir Steinunn, sem ræddi við mbl.is á Flateyri á föstudaginn ásamt Birki Jónasi bróður sínum. Fjölskylda þeirra hafði atvinnu af bátnum Blossa ÍS, sem er að öllum líkindum ónýtur eftir að hafa orðið fyrir flóðinu úr Skollahvilft.

Segist Steinunn halda að fólk sé enn reitt og segir að margar „af hverju?“ spurningar hafi komið fram á fundinum. „Ég vona bara að það verði eftirfylgni á þessu og það verði annar fundur aftur síðar. Það er gott að taka einn svona snemma en svo koma kannski spurningar þegar líður á,“ segir hún.

„Mér heyrðist að vinnan væri á öllum vígstöðvum farin í gang og ég vona bara að svo verði. Að þetta séu ekki bara innantóm orðin. En ég upplifði það allavega ekki þarna. Það virðist vera mikil samstaða alls staðar. Það er mjög gott að finna það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert