„Algjörlega verið að byrja á öfugum enda“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að með því að stytta starfstíma á leikskólum Reykjavíkurborgar sé verið að byrja á öfugum enda. Styttingin dragi úr sveigjanleika við fjölskyldufólk og sé í raun þjónustuskerðing. 

Meiri­hluti skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar samþykkti á fundi sín­um í síðustu viku að breyta starfs­tíma leik­skóla borg­ar­inn­ar frá og með 1. apríl, þannig að al­menn­ur starfs­tími verði frá kl. 07:30 til 16:30, og styttist þannig um hálftíma. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að fallið verði frá styttingunni verður tekin fyrir á borgarstjórnarfundi sem hefst klukkan 14

Álaginu varpað á fjölskylduna

Tillagan hefur fengið mikla athygli frá því að greint var frá henni og segist Hildur finna fyrir mikilli óánægju meðal foreldra. „Þarna erum við að verða fyrir þjónustuskerðingu og það er verið að draga úr sveigjanleika við fjölskyldufólk og það er fyrst og fremst það sem að fólk er óánægt með. Vinnudagur fólks er ólíkur og það er ekki verið að mæta þessum ólíku þörfum sem eru í borginni.“

„Þarna er verið að létta álag á starfsfólk leikskóla og …
„Þarna er verið að létta álag á starfsfólk leikskóla og auðvitað viljum við öll gera það, en það sem gerist er að álaginu er varpað beint yfir á fjölskylduna sem á að leysa úr þessum hnút sem skapast. Mér finnst algjörlega verið að byrja á öfugum enda,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um fyrirhugaða styttingu á starfstíma leikskóla í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá segist Hildur einnig skynja óánægju með að ákvörðunin virðist hafa verið tekin í hálfgerðu tómarúmi milli stjórnmálamanna og leikskólastjóra og hún gagnrýnir að foreldrar og fulltrúar atvinnulífsins voru ekki hafðir með í ráðum, en tillagan er byggð á skýrslu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavíkurborg. 

„Þetta eru aðilar sem gætu kannski í sameiningu náð einhverri sátt. Auðvitað á að hlusta á kennarasamfélagið og fagaðila í stéttinni sem eru með gagnlegar ábendingar um hvað megi betur fara. En við verðum að athuga það að þetta eru bara rétt ríflega 300 manns sem starfa sem leikskólakennarar í Reykjavík en það eru 5.200 fjölskyldur sem eiga börn í leikskólum og enn fleiri sem eru með börn hjá dagforeldrum eða eru á biðlistum,“ segir Hildur og bætir við að henni finnist það sérstakt að ákvörðunin sé tekin eingöngu með hliðsjón af þörfum leikskólakennara en ekki miðað við þarfir fjölskyldna. 

„Þarna er verið að létta álag á starfsfólk leikskóla og auðvitað viljum við öll gera það, en það sem gerist er að álaginu er varpað beint yfir á fjölskylduna sem á að leysa úr þessum hnút sem skapast. Mér finnst algjörlega verið að byrja á öfugum enda,“ segir Hildur. 

Að hennar mati er ekki hægt að stytta starfstíma leikskóla í borginni fyrr en breytingar á vinnumarkaði hafa gengið í gegn. „Nú eru í raun allir farnir að tala um að vilja stytta vinnuvikuna, það er þverpólitískur vilji um það og atvinnulífið talar með sama hætti. En það er ekki hægt að byrja á þessari aðgerð áður en vinnumarkaðurinn hefur breyst. Mér finnst svolítið eins og pólitíkin haldi að þarna sé verið að skapa þrýsting á vinnumarkaðinn en það sem gerist er að það eru miklu fleiri á vinnumarkaði en foreldrar leikskólabarna og þetta mun verða til þess að fólk sem á börn á leikskólaaldri verður eftir í samkeppni á vinnumarkaði.“

Margvísleg neikvæð áhrif

Samkvæmt niðurstöðum könnunar stýrihópsins á dvalartíma barna í leikskólum í borginni eru 18% barna, eða 937 talsins, með dvalarsamning sem lýkur eftir klukkan 16:30 á daginn en af þeim eru að meðaltali 464 sótt fyrir klukkan 16:30. Um 400 börn eru því sótt eftir klukkan 16:30 úr leikskólum borgarinnar.

Hildur segir nauðsynlegt að koma til móts við þennan hóp foreldra leikskólabarna og telur hún skerðingu starfstíma leikskóla geta haft margvísleg áhrif. „Þetta getur haft neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, þetta getur jafnvel dregið úr barneignum, að fólk fari ekki út í þær því það muni hafa áhrif til tekjuskerðingar eða draga úr framgangi á vinnumarkaði. Það eru margvísleg neikvæð áhrif sem ég held að hafi ekki verið könnuð þegar þessi ákvörðun var tekin.“  

Hildur segist hafa heyrt frá foreldrum sem skerðing starfstíma leikskóla mun hafa einna mest áhrif á. „Þetta er fólk sem hugsar hvernig í ósköpunum það á að fara að þessu, einstæðir foreldrar og fólk sem er ekki með bakland.“

Rétt skref á röngum tíma?

Stytting á starfstíma leikskólanna verður til umræðu á borgarstjórnarfundi í dag. Hildur segist ætla að halda í vonina um að tillaga hennar og annarra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fallið verði frá skerðingunni verði samþykkt. 

„Ég ætla að vera vongóð. Það hefur vakið athygli mína að þingmenn Viðreisnar hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og það er mjög í andstöðu við hvernig Viðreisn talar um sveigjanleika í skólakerfinu og fyrir fjölskyldufólk. Þetta er í hrópandi ósamræmi við hvernig þau tala og hvað þau segjast standa fyrir,“ segir Hildur og vísar í færslu Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar, á Facebook þar sem hún segir umhugsunarvert að stytta starfstímann áður en almennar breytingar verða á starfstíma vinnandi fólks. Ákvörðunin sé samt sem áður rétt skref, en á röngum tíma. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert