Framkvæmdastjóri Sorpu víkur

Bygging urðunarstöðvar í Álfsnesi fór langt fram úr kostnaðaráætlun.
Bygging urðunarstöðvar í Álfsnesi fór langt fram úr kostnaðaráætlun. mbl.is/Styrmir Kári

Vinnuframlag Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu, verður afþakkað á meðan mál hans er til meðferðar innan stjórnar Sorpu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórninni en þessi ákvörðun var tekin á fundi stjórnarinnar í dag í kjölfar þess að skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar var kynnt. 

Skýrslan fjallar um ástæður frávika sem urðu á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum voru mistök við fjárfestingaáætlun og hærri framkvæmdakostnaður orsakir þess að Björn lagði til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun Sorpu til næstu fjögurra ára.

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.
Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. Ljósmynd/Aðsend

Munu rýna í úttektina

Skýrslan var unnin að beiðni stjórnar Sorpu og var innri endurskoðun Reykjavíkurborgar jafnframt falið að gera úttekt á stjórnarháttum félagsins.

Skýrslan var afhent stjórn Sorpu 30. desember síðastliðinn.

„Þann sama dag var framkvæmdastjóra Sorpu einnig afhent eintak af skýrslunni og þann 6. janúar sl. var honum gefinn frestur til að skila til stjórnar andmælum sínum og athugasemdum. Úttektin var tekin til efnislegrar meðferðar á stjórnarfundi í dag og í kjölfarið sett á vef Sorpu þar sem hún er öllum aðgengileg. Á fundinum var samþykkt að afþakka vinnuframlag framkvæmdastjóra félagsins á meðan mál hans er til meðferðar innan stjórnar,“ segir í tilkynningunni. 

Á næstu sex mánuðum mun stjórn Sorpu rýna í efni úttektarinnar og leita leiða til umbóta á félaginu í samráði við eigendur þess. Sorpa er rekin sem byggðasamlag sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Forsvarsmenn félagsins munu ekki tjá sig um efni skýrslunnar á meðan andmælafrestur framkvæmdastjórans er í gildi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert