Sameining gæti tryggt betri ráðstöfun fjármuna

Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu.
Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu. Ljósmynd/Kópavogsbær

Stjórnarformaður Sorpu telur að efla mætti byggðasamlög á höfuðborgarsvæðinu með aukinni samvinnu eða jafnvel sameiningu. Það gæti tryggt að betur væri staðið að ráðstöfun fjármuna og fleiri mikilvægum þáttum. 

Síðdegis í dag var skýrsl­a innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Sorpu afhjúpuð. Þar er að finna víðtæka gagnrýni á stjórnun Sorpu og það hvernig félagið hafi borið sig að við gerð fjárhagsáætlunar vegna bygg­ing­ar gas- og jarðgerðar­stöðvar í Álfs­nesi og mót­töku­stöðvar í Gufu­nesi.

Ýmsir misbrestir

Eins og áður hef­ur komið fram í fjöl­miðlum voru mis­tök við fjár­fest­inga­áætl­un og hærri fram­kvæmda­kostnaður or­sak­ir þess að Björn H. Hall­dórs­son, framkvæmdastjóri Sorpu, lagði til að tæp­um 1,4 millj­örðum króna yrði bætt við fjár­hags­áætl­un Sorpu til næstu fjög­urra ára.

„Mér finnst mikilvægt að undirstrika að þessi skýrsla var gerð að frumkvæði stjórnar og hún varpar ljósi á marga þætti sem út af brugðu í þessu máli. Við munum að svo komnu máli á meðan framkvæmdastjóri hefur andmælafrest við bréfi sem við sendum honum ekki tjá okkur um einstök atriði skýrslunnar,“ segir Birkir Jón Jónsson, stjórn­ar­formaður Sorpu.

Bréfið sem stjórn Sorpu sendi framkvæmdastjóranum var byggt á efni skýrslunnar en eins og fram hefur komið var honum vikið frá störfum á meðan stjórn Sorpu skoðar málið.

„Almennt séð vil ég þó taka fram að mín skoðun er sú að ýmis tækifæri séu til úrbóta innan byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu. Því ég tel að það sé rétt að skoða hvort það sé hægt að efla þessi félög með aukinni samvinnu eða jafnvel sameiningu til þess að tryggja að áætlunargerð, uppbygging fjárhagsáætlana, ráðstöfun fjármuna og eftirliti sé sinnt betur en almennt er nú gert,“ segir Birkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert