Elti þjófana uppi

mbl.is/Eggert

Ökumaður sá til manna stela kerru á bensínstöð í Breiðholti (hverfi 109) um eittleytið í nótt og tilkynnti um þjófnað á kerrunni til lögreglu. Hann ákvað að elta bifreiðina sem þjófarnir óku af vettvangi með kerruna og þegar þeir urðu varir við hann stöðvuðu þjófarnir bifreiðina og losuðu sig við kerruna. Þeir óku síðan á brott og náðust ekki.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan bifreið í Árbænum þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Á níunda tímanum í gærkvöldi var síðan annar ökumaður stöðvaður í Grafarvoginum en auk þess að aka undir áhrifum fíkniefna var hann með fíkniefni á sér.

Skömmu fyrir klukkan 22 í gærkvöldi stöðvaði lögreglan ökumann í Austurbænum (hverfi 105) sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Í nótt var ölvaður ökumaður stöðvaður í Austurbænum (hverfi 108) og eins var ölvaður ökumaður stöðvaður í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert