Sýknaður af ákæru um brot gegn 13 ára stúlku

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði talið stúlkuna vera …
Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði talið stúlkuna vera 17 ára gamla og fyrst orðið áskynja um raunverulegan aldur hennar eftir að þau áttu umrædd kynferðisleg samskipti, sem hefðu verið með beggja vilja. mbl.is/Þór

Rúmlega tvítugur karlmaður var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjavík af ákæru um að hafa framið kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku árið 2016, er maðurinn sjálfur var 18 ára gamall. Honum var gefið að sök að hafa látið stúlkuna hafa við hann munnmök og hafa haft við hana samfarir og með því brotið gegn fyrstu málsgrein 202. greinar almennra hegningarlaga, sem kveður á um að ólögmætt sé að hafa kynferðismök við börn yngri en 15 ára.

Stúlkan er á einhverfurófi og greindist með asperger-heilkenni í mati hjá sálfræðingi sem hún undirgekkst eftir að málið kom upp. Sönnunarmatið fyrir héraðsdómi snerist fyrst og fremst um það hvort maðurinn hafi vitað réttan aldur stúlkunnar.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði talið stúlkuna vera 17 ára gamla og fyrst orðið áskynja um raunverulegan aldur hennar eftir að þau áttu umrædd kynferðisleg samskipti, sem hefðu verið með beggja vilja. Hann sagði fyrir dómi að eftir að hann hefði komist að réttum aldri hennar hafi hann slitið vináttu þeirra.

Stúlkan sagði aðra sögu af samskiptum þeirra tveggja. Í skýrslu sem hún gaf í Barnahúsi í lok sumars 2016 sagði hún að þau hefðu vitað réttan aldur hvort annars og hefðu talað um það sín á milli að aldurinn væri aðeins tala. Þau hefðu svo „byrjað saman“ og verið í sambandi í um þrjár vikur. Hún sagði einnig í dómskýrslunni að sá ákærði hefði „nauðgað“ henni, hún hefði orðið kvíðin og stressuð þetta umrædda skipti og ekki getað sagt nei við hann.

Rafræn samskipti ekki í rannsóknargögnum lögreglu

Það sem gerðist þeirra á milli hvað kynferðislegar athafnir varðar var „ágreiningslaust“ að mati dómara málsins, sem mat einnig framburð stúlkunnar um það hvernig hún og ungi maðurinn „nálguðust hvort annað með aldurinn“ vera einlægan. Dómari segir í niðurstöðu sinni að það hljóti að „teljast sérkennilegt“ að þau hafi ekki rætt saman um aldurstengdar upplýsingar, til dæmis varðandi það hvar hún væri í skóla eða vinnu, hvort hún væri með ökuréttindi eða annað í þeim dúr hefði borið á góma í samskiptum þeirra.

Dómari málsins fann þess þó hvergi merki í vitnisburðum annarra en stúlkunnar sjálfrar að sá ákærði hefði vitað réttan aldur stúlkunnar og sönnunargögn um rafræn samskipti þeirra lágu ekki fyrir í rannsóknargögnum lögreglu. Dómari sagði að það væri „óvenjulegt“ miðað við mál af þessum toga og var ákæruvaldið látið bera halla af því við sönnunarmatið í málinu.

Framburður mannsins óskýr og óstöðugur

Í niðurstöðu dómarans sagði að framburður mannsins um samskipti þeirra tveggja hvað varðar aldurinn og hvenær hann komst að því að stúlkan hefði verið 13 ára og þá hvernig, hefði verið „óskýr“ og „óstöðugur“ og í andstöðu við framburð annars vitnis, vinkonu stúlkunnar. Þetta megi þó mögulega skýra með því hversu langan tíma meðferð málsins tók og óskýr framburður mannsins gat því ekki ráðið úrslitum við sönnunarmat dómarans, að hans mati.

Því þótt ekki sannað, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að ungi maðurinn hefði brotið gegn stúlkunni.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert