Kleip og káfaði en kitlaði ekki

Landsréttur sakfelldi yfirmanninn fyrir brot sitt, en mildaði skilorðsbundinn fangelsisdóm …
Landsréttur sakfelldi yfirmanninn fyrir brot sitt, en mildaði skilorðsbundinn fangelsisdóm hans. mbl.is/Hanna

Landsréttur mildaði í dag dóm yfir karlmanni, sem árið 2016 káfaði á og kleip í rassinn á 17 ára stúlku á skemmtistað. Maðurinn er miklu eldri en stúlkan og var hann að auki yfirmaður hennar, en atvikið átti sér stað á árshátíð fyrirtækisins sem þau störfuðu hjá.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þessa áreitni árið 2018, en í dag var dómurinn mildaður niður í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Aðallega var dómurinn mildaður sökum þess hve lengi málið hefur dregist í dómskerfinu.

Landsréttur ákvað að sá dæmdi þyrfti að greiða ungu konunni 200.000 kr. í skaðabætur, en héraðsdómur kvað á um 500.000 kr. bótagreiðslu.

Ekki trúverðugt að hann hafi verið að biðjast afsökunar á kitli

Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að framburður ungu konunnar hafi verið stöðugur og fái stoð af skilaboðum sem hún hafi sent bæði móður sinni og frænku eftir atvikið.

Þá var einnig litið til þess að tveimur dögum eftir árshátíðina sendi yfirmaðurinn stúlkunni SMS og baðst afsökunar á því sem „skeði á laugardaginn“.

Yfirmaðurinn sagðist einnig hafa verið „mjög tæpur“, þetta hefði átt „að vera smá grín“ en hann sæi núna að þetta hefði verið „viðbjóður“ af hans hálfu, sem hann vonaðist til að hún gæti fyrirgefið.

Landsréttur segir að maðurinn hafi ekki gefið trúverðuga skýringu á þessu orðalagi í skilaboðum sínum til stúlkunnar, „ef hann gerði ekki annað en að kitla brotaþola eins og hann hefur borið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert