Notuðu Lindubuff í þorrabjórinn

Bruggmeistararnir Valgeir Valgeirsson og Baldur Kárason fögnuðu útkomunni á Prikinu …
Bruggmeistararnir Valgeir Valgeirsson og Baldur Kárason fögnuðu útkomunni á Prikinu á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bóndadagurinn er í dag og hófst sala þorrabjórs í Vínbúðunum í gær. Alls verða 14 tegundir þorrabjórs í boði þetta árið og ætti bjóráhugafólk að finna sitthvað forvitnilegt í hillum verslana. Einn af þeim bjórum sem vekja athygli nafnsins vegna er Linda B. Í ljós kemur að þar er um samstarfsverkefni tveggja brugghúsa að ræða, hins fornfræga Víking brugghúss og RVK Brewing sem hefur verið að gera sig gildandi síðustu misseri.

„Ég hef verið með það á bak við eyrað í nokkur ár að fá að vinna með Baldri og er himinlifandi með að það hafi gengið upp. Hann er sá sem hefur starfað lengst allra bruggmeistara á Íslandi og ég kem víst næstur í röðinni. Þetta er því risasamstarf,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá RVK Brewing.

Með Lindubuff í farteskinu

Valgeir hefur starfað sem bruggmeistari hér á landi síðan 2007 en Baldur Kárason hefur verið aðalbruggari Víking brugghúss frá árinu 1993 og hefur á þeim tíma þróað yfir fimmtíu bjóra. Þeir félagar brugguðu saman stóran og mikinn bjór í Imperial Stout-stíl, 10,5% að styrkleika, sem meðal annars er bragðbættur með Lindubuffi.

„Hugmyndin var sú fyrst maður var að fara að brugga fyrir norðan að notast við einhverja norðlenska vöru. Sælgætisgerðin Linda var stofnuð á Akureyri og Lindubuffin eru því norðlenskt sælgæti. Við vorum með nokkra kassa af Lindubuffum og það kom á daginn að þau hentuðu mjög vel í bjórinn, þau komu með smá kakó og vanillusætu sem blandast vel við sterka tóna frá apótekaralakkrís. Þetta tikkar í öll boxin og ég er himinlifandi með útkomuna,“ segir Valgeir.

Við fótskör meistarans

Valgeir hefur í gegnum tíðina bruggað marga Imperial Stout-bjóra. Þrátt fyrir alla reynslu Baldurs gat Valgeir við þetta tækifæri miðlað þekkingu sinni.

„Ég leit á þetta sem ákveðið tækifæri fyrir mig því Víking hefur aldrei bruggað í þessum bjórstíl. Það var gaman að taka þátt í að skapa eitthvað nýtt á þeim bæ,“ segir Valgeir, en stefnt er að því að Baldur heimsæki Valgeir í RVK Brewing síðar á árinu og samstarfið verði endurtekið. Þá má búast við því að Valgeir fái að nema við fótskör meistarans.

Viðtal þetta birtist í Morgunblaðinu 23. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert