Sjávarperlan var hífð upp í dag

Sjávarperlan er hún var hífð upp á land í dag.
Sjávarperlan er hún var hífð upp á land í dag. Ljósmynd/Eyþór Jóvinsson

Sjávarperlan var hífð upp úr Flateyrarhöfn um tvöleytið í dag eftir að hafa lent í snjóflóðinu um miðjan mánuðinn. Ekki var hægt að rétta bátinn við á botninum og er hann því á hvolfi uppi á landi.

Þar með er búið að koma á land fjórum bátum af sex sem lentu í flóðinu.

Ljósmynd/Eyþór Jóvinsson

Að sögn Guðmundar Kristjánssonar, hafnarstjóra Ísafjarðarhafnar, er Sjávarperlan sennilega ónýt, enda mikið brotin. „Þetta er sennilega eini báturinn sem er hægt að segja með fullri vissu að sé sennilega ónýtur,“ segir hann.

Enn eru eftir í höfninni Eiður, sem er bundinn fastur við bryggjuna á hvolfi, og Orri, sem er strandaður í fjörunni og haggast ekki, að sögn Guðmundar. „Það verður stærsta verkefnið. Þetta er stærsti báturinn og erfiðustu aðstæðurnar. Hann er alveg á hvolfi.“

Ljósmynd/Eyþór Jóvinsson

Ekkert unnið síðustu tvo daga

Vegna veðurs hefur ekkert verið unnið í höfninni síðustu tvo daga en í morgun gátu menn aftur hafist handa. Auk þess að hífa upp Sjávarperluna hélt hreinsunarstarf áfram í bátahöfninni þar sem flóðið féll.

Ljósmynd/Eyþór Jóvinsson

Guðmundur kveðst hafa fulla trú á því að hægt verði að ljúka störfum í höfninni í næstu viku svo framarlega sem veðrið verði mönnum hliðhollt. Ekki er spáð góðu veðri á morgun og eru kafararnir sem hafa verið þarna að störfum því komnir í helgarfrí.

Ljósmynd/Eyþór Jóvinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert