Aldrei lagt mig í eins mikla hættu

Kristján með hermönnunum sem gættu ferðalanganna þegar gengið var á …
Kristján með hermönnunum sem gættu ferðalanganna þegar gengið var á eldfjallið Nyiragongo í Kongó.

„Ástandið var mjög eldfimt þegar ég kom til Súdan en kvöldið áður hafði herinn drepið 35 mótmælendur í höfuðborginni, Kartúm, og almenningur hreinlega lokað landinu að mestu. Ég komst á hinn bóginn einhverja 300 km en þarna var komið fram í júní 2019. Á öllum mínum ferðalögum hef ég aldrei lagt mig í eins mikla hættu.“

Þetta segir Kristján „Hringfari“ Gíslason sem ferðaðist um Afríku á mótorhjóli á liðnu ári en þá álfu geymdi hann til betri tíma þegar hann fór í hringferðina á sínum tíma.  

Súdan er næsta ríki fyrir sunnan Egyptaland, þar sem Afríkuævintýri Kristjáns hófst. Hann var þó ekkert að flýta sér þangað enda Súdan þekkt fyrir flest annað en stöðugt stjórnarfar og almenna friðsæld. Hann var í nánu sambandi við utanríkisráðuneytið hér heima upp á stöðuna og í ljós kom að stjórnarbylting hafði verið gerð eftir að hann fékk vegabréfsáritun inn í landið. „Forsetanum, Omar al-Bashir, var steypt af stóli af her landsins í apríl 2019 þegar vegabréfsumsókn mín var í sendiráði Súdan í Ósló.“

Fjárhirðirinn, af ættbálki Mursi í Labuko Eþíópíu, passar vel upp …
Fjárhirðirinn, af ættbálki Mursi í Labuko Eþíópíu, passar vel upp á féð sitt.


Kristján ákvað eigi að síður að láta slag standa en tryggði sér þjónustu heimamanns, svokallaðs „reddara“, sem var öllum hnútum kunnugur. Skipulagði hann meðal annars ökuleiðina fyrir Kristján með hjálp vina sinna og kunningja.

50 stiga hiti

Ekki helgaðist hættan sem Kristján lagði sig í þó af ástandinu í landinu heldur veðrinu en 50 stiga hiti var í Súdan á þessum tíma og glampandi sól. „Ég kunni ekkert á þetta veður; taldi mig vera með nægar vatnsbirgðir en annað kom á daginn. Mér leið ekkert sérstaklega vel þarna, einn að hjóla í eyðimörkinni, og sá engin hús, bara moldarkofa. Það varð mér til happs að ég rakst á vegagerðarmenn sem leyfðu mér að halla mér undir sólhlíf til að jafna mig og safna kröftum, auk þess að gefa mér að borða og drekka.“

Lengra komst Kristján raunar ekki en búið var að loka veginum og ekki um annað að ræða en að snúa við. Kristján hringdi því í „reddarann“, sem sendi hjón nokkur til móts við hann og fékk hann hjá þeim húsaskjól. Hjólið var sett á pramma og farið með það sem leið lá út á litla eyju á ánni Níl, þar sem Kristján dvaldist í þrjá sólarhringa án þess að hafa hugmynd um hvað væri á seyði í heiminum. „Enginn vissi neitt og mér sagt að ég gæti alveg eins búið mig undir að vera í þrjá mánuði á eyjunni. Suðurlandamærin við Eþíópíu voru lokuð og ég fann fyrir mikilli frelsisskerðingu, ekki síst vegna þess að ég gat ekki látið nokkurn mann vita af mér. Það var ekkert net þarna, ekkert Wi-Fi og eina leiðin til að koma skilaboðum heim var gegnum fax. Þú veist hvað það er?“ segir hann hlæjandi. „Þannig kom ég skilaboðum til Ásdísar gegnum faxnúmer í Þýskalandi. Þá kom hins vegar í ljós að hún gat hringt í mig enda þótt ég gæti ekki hringt í hana.“

Kristján horfir á kraumandi eldgíg eldfjallsins Nyiragongo í Kongó.
Kristján horfir á kraumandi eldgíg eldfjallsins Nyiragongo í Kongó.


Nánar er fjallað um Afríkuferð Kristjáns í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert