Erfitt að festa svefn í gærkvöldi

„Ég held að klukkan hafi verið orðin þrjú, hálffjögur þegar …
„Ég held að klukkan hafi verið orðin þrjú, hálffjögur þegar ég sofnaði. Frúin var reyndar miklu verri en ég,“ segir Sigurður Ragnar Ólafsson Grindvíkingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ragnar Ólafsson íbúi í Grindavík segir að það hafi verið erfitt að festa svefn í gærkvöldi. „Ég ætlaði nú aldrei að geta sofnað, þetta var bara í hausnum á mér. En við vonum bara það besta,“ segir hann við mbl.is í Grindavík í dag.

Hann segir að áður en Svartsengisvirkjun hafi komið til sögunnar hafi oft verið miklir jarðskjálftar í nágrenni Grindavíkur, en síðan hafi þeir svo gott sem snarhætt eftir að þar var farið að bora.

Það „fari því í hann“ að finna fyrir skjálftum núna og heyra af landrisi vestan Þorbjarnar.

Eiginkonan stressaðri en hann sjálfur

„Ég held að klukkan hafi verið orðin þrjú, hálffjögur þegar ég sofnaði. Frúin var reyndar miklu verri en ég. Við búum alveg efst uppi, þarna efst upp frá. Ætli við yrðum ekki að láta okkur hverfa ef sú staða kæmi upp [að það færi að gjósa]. En eins og ég segi, maður bara vonar það besta,“ segir Sigurður, sem ætlaði sér að mæta á íbúafundinn sem hófst í íþróttahúsi bæjarins kl. 16.

„Það er bara skyldumæting, það er bara þannig. Maður bara veit ekkert fyrr en maður er búinn að heyra í þeim þarna á fundinum, hvernig þetta verður,“ segir Sigurður.

Sigurður Ragnar á heima ofarlega í Grindavíkurbæ, næst fjallinu Þorbirni …
Sigurður Ragnar á heima ofarlega í Grindavíkurbæ, næst fjallinu Þorbirni sem sést hér í vinstra horni myndarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert