Hætta eftir 26 ára samfellda útgáfu

Tímaritið kom út í 20 þúsund eintökum í hverjum mánuði …
Tímaritið kom út í 20 þúsund eintökum í hverjum mánuði og var einnig aðgengilegt á netinu. Ljósmynd/Myndir mánaðarins

Útgáfu frítímaritsins Myndir mánaðarins hefur verið hætt eftir 26 ára samfellda mánaðarlega útgáfu. Ljóst er að margir syrgja tímaritið, en eftir að tilkynnt var um tímamótin á facebooksíðu þess hafa athugasemdirnar hrúgast inn frá dyggum lesendum sem þakka fyrir samfylgdina í gegnum árin með sorg í hjarta.

Stefán Unnarsson, ábyrgðarmaður Mynda mánaðarins, segir ástæðuna fyrir endalokunum vera breytt landslag á auglýsingamarkaði. Það hafi þó ekki enn verið farið að halla undan fæti. „Blaðið gekk allan tímann mjög vel og það voru aldrei nein vandamál, þannig séð. Það er bara breytt landslag á auglýsingamarkaði fram undan og það er betra að stoppa meðan hlutirnir eru í lagi; ekki halda áfram og verða strand. Dreifingin gekk mjög vel og blaðið kláraðist alltaf í hverjum mánuði,“ segir Stefán, en upplagið var 20 þúsund eintök og tímaritið einnig aðgengilegt á netinu.

Það voru aðeins þrír sem komu að útgáfunni; einn blaðamaður sem setti einnig upp blaðið, prófarkalesari og svo Stefán sjálfur sem sá um dreifingu, auglýsingar og yfirumsjón.

„Það var hvergi til sparað í gæðum“

Hann segir vissulega leiðinlegt að hætta útgáfu en er þó alls ekki með sorg í hjarta. Hann er frekar ánægður með gott starf í gegnum tíðina. „Ég er ánægður yfir að hafa geta boðið upp á glæsilegt tímarit, að fullu sambærilegt við seld tímariti. Það var hvergi til sparað í gæðum, pappírinn var góður og það fannst ekki stafsetningarvilla í blaðinu.“

Stefán hefur nú mestar áhyggjur af hnignun íslenskunnar en hann segir kennara hafa notað blaðið við kennslu. „Nú þurfa börnin að nálgast upplýsingar um kvikmyndir á ensku, að miklu leyti. Það truflar mig mest.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert