Icelandair „því miður“ í mjög góðri æfingu

Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Því miður erum við í mjög góðri æfingu í þessum málum. Við erum búin að fara í gegnum mörg eldgos og erum með niðurnjörvað verklag í tengslum við gos eða möguleika á gosum,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, spurður út í viðbrögð fyrirtækisins við landrisi á Reykjanesi.

Eftir að tilkynning barst frá Isavia um gult viðbúnaðarástand byrjaði Icelandair að fylgjast með ákveðnum skeytasendingum og upplýsingaveitum sem tengjast fluginu og viðkomandi jarðhræringum. Einnig voru sendar tilkynningar á flugmenn þar sem þeir voru minntir á verklagsreglur í gulu viðbúnaðarstigi.  

Eldgosateymi kallað til í appelsínugulu stigi

Innan fyrirtækisins hefst jafnframt undirbúningur varðandi viðbrögð við appelsínugulu viðbúnaðarstigi. Spurður hvað gerist þegar viðbúnaðarstig fær þann lit segir Haukur að farið sé í gegnum ákveðna verkferla og kallað til sérstakt eldgosateymi sem byrjar að velta fyrir sér ákveðnum kringumstæðum ef þörf er á að breyta flugi og flugleiðum inn og út af flugvöllum.

Einnig er fylgst enn frekar með skeytasendingum og upplýsingaveitum og sett er aukið eldsneyti á flugvélarnar til að þær eigi betur kost á að fljúga fram hjá gosum. Ef það byrjar að gjósa, sem myndi þá vera rautt viðbúnaðarstig, má búast við því að Isavia loki næsta svæðinu í kringum flugvöllinn tímabundið á meðan það áttar sig á því um hvers konar gos er að ræða.

Ekki sérstök viðbrögð vegna nálægðar

Spurður hvort viðbragð sé sérstaklega mikið hjá Icelandair vegna þess hve landrisið er nálægt flugbrautum Keflavíkurflugvallar, eða um tólf kílómetra frá, segir Haukur svo ekki vera. „Þetta er lægsta viðbúnaðarstig. Eins og hefur komið fram í fréttunum getum við verið í nákvæmlega sama ástandi næstu tvö árin í gulu viðbúnaðarástandi,“ segir hann.

„Menn horfa fram á veginn og velta því fyrir sér hvaða sviðsmyndir geta verið næstar,“ bætir hann við og segir Icelandair vera í samráði við Isavia og almannavarnir varðandi upplýsingagjöf og næstu skref.

Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði mikil áhrif á flugumferð.
Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði mikil áhrif á flugumferð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flugrekandinn ber ábyrgðina

Síðan eldgosið í Eyjafjallajökli varð árið 2010 hefur reglugerðin breyst varðandi flug yfir svæðum þar sem aska er í loftinu eftir eldgos. Áður sá stofnunin Air Navigation Service Providors (AFSP), sem sinnir flugeftirliti, um að loka svæðum með því að skoða öskudreifingarspár, sem voru að mestu leyti unnar í Bretlandi. Giltu þær sem nokkurs konar veðurspá fyrir þau svæði þar sem aska dreifist. Spáð var fyrir um mismunandi þéttleika öskunnar eftir svæðum, að sögn Hauks.

Í dag hefur AFSP ekki lengur þetta hlutverk heldur er það flugrekandinn sjálfur sem ber ábyrgðina. Hann gerir áhættumat á þeim kringumstæðum sem eru uppi hverju sinni og þarf að sýna Samgöngustofu fram á að hann telji öruggt að fljúga á svæðum þar sem er eldgos, að loknu aðgerðaáhættumati. Flugvélaframleiðendur eru einnig með ákveðið verklag sem þarf að fara eftir í tengslum við eldgos og flug nálægt eldfjallasvæðum og í tilfelli Icelandair er það Boeing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert