Meiri áhyggjur af körfuboltanum en jarðhræringum

Jón Gauti Dagbjartsson, íbúi í Grindavík, var pollrólegur yfir landrisinu.
Jón Gauti Dagbjartsson, íbúi í Grindavík, var pollrólegur yfir landrisinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bara alveg pollrólegur yfir þessu, ef það fer að gjósa þá bara færum við okkur, þá förum við bara eitthvað,“ segir Jón Gauti Dagbjartsson, íbúi í Grindavík. Hann segist hafa meiri áhyggjur af þungu gengi körfuboltaliðs bæjarins í Domino‘s-deild karla en landrisinu í nágrenni bæjarins.

„Þetta fer nú illa í einhverja, en ætli maður sé ekki bara of vitlaus til að átta sig á því að þetta er hættulegt,“ segir Jón Gauti við mbl.is. Hann segist aðspurður ekki hafa orðið neitt órólegur þegar hann heyrði af því að búið væri að lýsa yfir óvissustigi vegna líklegrar kvikusöfnunar skammt frá byggðinni.

„Nei, ég svaf betur í nótt en yfirleitt áður. Ég lagðist bara á koddann og sofnaði og vaknaði bara við klukkuna. Nú kíkir maður reglulega út um gluggann og athugar hvort það er einhver glampi,“ segir Jón Gauti og hlær.

Frá Grindavík í dag. Þar eru íbúar sumir áhyggjufullir vegna …
Frá Grindavík í dag. Þar eru íbúar sumir áhyggjufullir vegna landrissins vestan Þorbjarnar, fjallsins sem sést hér bak við byggðina. En ekki Jón Gauti. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var einmitt að hugsa það núna, er ekki talað um að allir krakkar séu þunglyndir yfir loftslagsvánni? Nú geta þau bara hætt að hugsa um það og velt sér upp úr þessu í staðinn,“ segir Jón Gauti og hlær enn meira.

Nauðsynlegt að mæta á íbúafundinn

Þrátt fyrir að vera algjörlega pollrólegur yfir stöðu mála ætlar hann á íbúafund sem hefst í íþróttahúsinu, Röstinni, klukkan 16 í dag, en þar munu vísindamenn fræða íbúa um stöðu mála.

„Ég ætla að kíkja þarna. Maður verður nú að fá einhverjar upplýsingar svo maður sé ekki algjör fáviti í þessu. Það hljóta að koma einhverjar upplýsingar þar, þarf maður ekki að pakka einhverjum fötum í tösku og hafa klárt?“ spyr Jón Gauti.

„Annars hef ég miklu meiri áhyggjur af körfuboltaliðinu mínu heldur en einhverju gosi hérna. Það er búið að vera dálítið „ströggl“ á þessu, en við förum að snúa þessu við,“ segir Jón Gauti í léttum tón, en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert