„Undir niðri held ég að allir séu stressaðir“

Guðbjörg Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Grindavík. Hún segist …
Guðbjörg Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Grindavík. Hún segist hafa verið alin upp við það að það gæti farið að gjósa nærri bænum, en ógnin hafi ekki verið jafn áþreifanleg og nú. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Upptökin eru svo nálægt Grindavík og ef það fer að gjósa þarna þá er þessi byggð í hættu. Við höfum þrjár leiðir til þess að komast í burtu, en þetta er grafalvarlegt, finnst mér. Maður á náttúrlega fjölskyldu hérna og barnabörn og svona undir niðri held ég að allir séu stressaðir,“ segir Guðbjörg Guðmundsdóttir, kokkur á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík.

„Ég er fædd og uppalin hérna og er eiginlega alin upp við þetta, að það gæti farið að gjósa,“ segir Guðbjörg, en hún segir þá ógn ekki áður hafa verið verið jafn áþreifanlega og hún er nú.

„Ég man bara, þegar ég var krakki, þá var maður alltaf ofsalega hræddur þegar jarðskjálftarnir voru,“ segir Guðbjörg. Hún segir alltaf óhugnanlegt þegar skjálftarnir koma og segist hafa fundið vel fyrir skjálftunum í síðustu viku, sem voru sumir yfir þremur að stærð.

Tilbúin með dót í bakpoka heima

Ekki hefur gosið á svæðinu, þar sem nú er talið líklegt að kvika sé að safnast saman og valda hröðu landrisi, síðan á 13. öld. Sérfræðingar telja ekki líklegt að eitthvað gerist í bráð, en útiloka þó ekkert.

Þar sem þessi sennilega kvikusöfnun á sér stað afar nærri byggðinni í Grindavík var talið rétt að lýsa yfir óvissustigi almannavarna og gera nauðsynlegar ráðstafanir, sem farið verður yfir með íbúum á íbúafundi í íþróttahúsi bæjarins síðdegis.

„Þeir segja það fræðingarnir að það sé löngu kominn tími – og þess vegna er þetta svona vaktað. Ég ætla auðvitað að vona að það gjósi ekki, en ég er allavega búin að setja ýmislegt bara í bakpoka – ef – og mér finnst að allir ættu að gera það,“ segir Guðbjörg. Hún segir að dóttir sín sé einnig búin að pakka í ferðatösku fyrir sig og sína sem verði klár við dyrnar.

„Hún ætlar að vera tilbúin. Því við vitum að ef þetta myndi [gjósa], þá hefðum við svo nauman tíma. Var ekki talað um klukkutíma til þrjá, í mesta lagi?“ spyr Guðbjörg.

Fram hefur komið að komi til eld­goss gæti þurft að flytja um 5.000 manns á brott, íbúa Grinda­vík­ur og starfs­menn Svartsengis­virkj­un­ar og Bláa lóns­ins, auk ferðamanna

Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sagði við mbl.is  að erfitt væri að segja til um hve lang­ur fyr­ir­vari gæf­ist til rým­ing­ar, en hann gæti verið frá nokkr­um mínútum upp í klukku­stund­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert