Verkfallsboðun Eflingar afhent

Borgarstjóri tók við verkfallsboðun úr hendi formanns Eflingar.
Borgarstjóri tók við verkfallsboðun úr hendi formanns Eflingar. Ljósmynd/Efling

Verkfallsboðun félagsmanna Eflingar sem starfa fyrir Reykjavíkurborg var afhent borgarstjóra fyrir hádegi í dag, en félagsmenn samþykktu verkfallsaðgerðir í gær með 95,5 prósentum greiddra atkvæða. Verkfallið nær til starfsfólks á leikskólum borgarinnar, fyrir utan menntaða leikskólakennara, starfsfólks hjúkrunarheimila, í heimahjúkrun og við sorp- og gatnaumhirðu. Verkfallsaðgerðir hefjast 4. febrúar.

Það var formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sem afhenti Degi B. Eggertssyni borgarstjóra verkfallsboðunina. „Hann bauð mér upp á spjall og ég kom mínum sjónarmiðum og samninganefndar Eflingar á framfæri. Hann kom sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta var óvæntur fundur og við notuðum tækifærið til að fara yfir stöðuna. En við erum á nákvæmlega sama stað og við vorum áður en þetta samtal átti sér stað,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is.

Eftir hádegi hélt Efling svo blaðamannafund í Bragganum í Nauthólsvík þar sem kynnt var hvað það myndi kosta borgina að leiðrétta lægstu laun og sú upphæð borin saman við kostnað á endurnýjun Braggans. Fram kom að þegar leiðrétting á kjörum um 1.800 borgarstarfsmanna og fjölskyldna þeirra væri komin til áhrifa væri það á við tæplega fjóra bragga á ársgrundvelli. Á samningstímanum myndi rekstrarafgangur borgarinnar dekka kostnaðinn margfalt, að því er fram kom á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert