Bundnir af samningum við aðrar þjóðir um loðnu

Ísleifur VE 63, skip Vinnslustöðvarinnar, með makrílafla 2016.
Ísleifur VE 63, skip Vinnslustöðvarinnar, með makrílafla 2016. mbl.is/G.E.

Samningar eru í gildi á milli Íslendinga og annarra þjóða um veiðar á loðnu og ákvörðun um „lítinn loðnukvóta“ til að viðhalda mörkuðum yrði flóknari fyrir vikið. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, hefur mælst til þess að slíkur kvóti verði gefinn út til að viðhalda mörkuðum, t.d. fyrir hrogn og hrognaloðnu í Asíu, án þess að það feli í sér mikla áhættu fyrir lífríkið.

Sigurgeir segist hafa tekið málið upp við sjávarútvegsráðherra. Samkvæmt fyrrnefndum samningum er hlutur Íslendinga í loðnuaflanum 80%, Grænlendingar eru nú með 15% og Norðmenn 5%. Hlutur Norðmanna var til skamms tíma 8%, Íslendinga 81% og Grænlendinga 11%, en vestlæg útbreiðsla loðnunnar hefur leitt til aukinnar hlutdeildar Grænlendinga samkvæmt samningum. Við útgáfu á loðnukvóta ættu þessar þjóðir því tilkall til ákveðins hlutar verði ekki samið um annað.

Í sérstökum Smugusamningi eða Barentshafssamningi frá 1999, þríhliða samningi Íslands, Noregs og Rússlands, er kveðið á um þorskveiðar Íslendinga í norskri lögsögu í Barentshafi gegn loðnu úr íslenskri lögsögu. Árið 2018 var þorskafli Íslendinga á þessu hafsvæði 7.055 tonn auk meðafla og áttu 26.950 tonn af loðnu að koma sem endurgjald á fiskveiðiárinu 2018/19, það vill segja á vertíðinni í byrjun árs 2019, sem engin varð. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að stjórnvöld eiga nú í viðræðum við Norðmenn um endurgjald vegna þorskveiða 2018.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert