„Það skiptir máli að við tölum um bækur“

Heiðar Ingi Svans­son, formaður Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­anda (FÍBÚT), á Bessastöðum …
Heiðar Ingi Svans­son, formaður Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­anda (FÍBÚT), á Bessastöðum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það skiptir miklu máli fyrir lestur, útbreiðslu og sölu bóka að við tölum um bækur, því að þeir sem standa okkur nærri taka mark á því sem við segjum þeim varðandi lestrarupplifun okkar,“ sagði Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefanda, í ræðu sinni á Bessastöðum fyrir stundu, en þar er nú verið að veita Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019.

Heiðar Ingi gerði í framhaldinu að umtalsefni opna Facebook-síðu sem nefnist  „Bókagull – umræða um góðar bækur“ og stofnaður var árið 2010. „Meðlimir í honum voru síðast þegar ég aðgætti 12.339. Stofnandi síðunnar er Magnea Magnús, fyrrum eigandi Bókaverslunar Þórarins Stefánssonar á Húsavík. Með því að halda þessum hópi gangandi í 10 ár hefur Magnea með einlægum áhuga og ástríðu sinni fyrir íslenskum bókum, lagt mikið af mörkum til að efla lestur og dýpka lestrarmenningu. Að minnsta kosti hefur umræðan þar haft áhrif á sjálfan mig og hvatt mig til að lesa bækur sem annars hefðu mögulega ekki fangað athygli mína.

En þær finnast víðar í samfélagi okkar, Magneurnar, sem vilja efla umfjöllun um bækur og bókmenningu og hvetja til aukins bóklesturs. Við búum nefnilega svo vel að eiga bókaunnendur í öllum hornum þjóðfélagsins, öflugt fólk sem hvetur til aukins lesturs með því til dæmis að deila lestrarupplifun sinni með öðrum, starfrækja leshringi, sækja bókmenntaviðburði, fjalla um bækur í fjölmiðlum eða með pólitískum stuðningi ríkis og sveitarfélaga,“ sagði Heiðar Ingi og benti á að bókaunnendur ættu marga ómetanlega fótgönguliða sem af natni og einlægri ástríðu höndla með bækur inn á bókasöfnum landsins, bæði almenningsbókasöfnum og skólabókasöfnum.

Fjármagni til bókakaupa er ábótavant

„En rekstrarumhverfinu er víðast þröngur stakkur búinn; fjármagni til bókakaupa er ábótavant, aðbúnaður lélegur og markaðsstarf lítt sýnilegt nema þeim sem þegar sækja söfnin. Hér þarf að taka mun fastar í árar og virkja allar þær Magneur sem fyrirfinnast hjá sveitarfélögum og hinu opinbera til að styrkja starfsemi þessara safna sem gegna afar mikilvægu hlutverki við eflingu bókmenningar okkar.

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við okkur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda farið fram með góðu fordæmi og eyrnamerkt ákveðna viðbótar fjárhæð á hverju ári sem eingöngu er ætlað að kaupa nýjar barnabækur fyrir skólabókasöfn sín. Hér mættu fleiri sveitarfélög í landinu fylgja með og auka verulega innkaup til að tryggja betra aðgengi notenda sinna að nýjum bókum. Enda er það engin tilviljun að skólabókasöfn skuli oft vera kölluð hjartað í hverjum skóla. Það er óskiljanlegt að bættur aðbúnaður og aukin innkaup bókasafna skuli ekki vera sjálfsagður hluti af öllum þeim fjölmörgu lestrarhvatningarverkefnum sem opinberir aðilar hafa lagt af stað með.

Umfangsmikið og vandasamt verk fram undan

Áfram vil ég benda á það sem betur má fara. Fyrirkomulagi námsbókaúgáfu hér á landi fyrir grunn- og framhaldsskóla er verulega ábótavant og þarfnast gagngerrar uppstokkunar og endurskoðunar. Það er því mikið gleðiefni að slíkt sé einmitt hluti af aðgerðum Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í þeim tilgangi að bregðast við miður góðum niðurstöðum síðustu PISA-könnunar. Hér er umfangsmikið og vandasamt verk fram undan sem staðfestir mikilvægi námsbóka við að efla læsi og bæta orðaforða og málskilning nemenda. Íslenskir bókaútgefendur eru sannarlega reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum svo að þessi aðgerð geti lánast sem best, samfélaginu okkar til heilla.“

Fimmtán bækur tilnefndar

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:

Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 - 1965
Útgefandi: Skrudda 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Lífgrös og leyndir dómar – Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi
Útgefandi: Vaka-Helgafell 

Páll Baldvin Baldvinsson
Síldarárin 1867-1969
Útgefandi: JPV útgáfa 

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir
Jakobína – saga skálds og konu
Útgefandi: Mál og menning 

Unnur Birna Karlsdóttir
Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi
Útgefandi: Sögufélag 

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og ungmennabóka

Arndís Þórarinsdóttir
Nærbuxnanjósnararnir
Útgefandi: Mál og menning 

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Langelstur að eilífu
Útgefandi: Bókabeitan 

Hildur Knútsdóttir
Nornin
Útgefandi: JPV útgáfa 

Lani Yamamoto
Egill spámaður
Útgefandi: Angústúra 

Margrét Tryggvadóttir
Kjarval – málarinn sem fór sínar eigin leiðir
Útgefandi: Iðunn

Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:

Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Svínshöfuð
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Bragi Ólafsson
Staða pundsins
Útgefandi: Bjartur

Guðrún Eva Mínervudóttir
Aðferðir til að lifa af
Útgefandi: Bjartur 

Sölvi Björn Sigurðsson
Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis
Útgefandi: Sögur útgáfa 

Steinunn Sigurðardóttir
Dimmumót
Útgefandi: Mál og menning

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til ársins 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka.

Tilnefningar eru kynntar 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Lokadómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar. Jónas Sigurðsson og Tómas Jónsson fluttu tvö lög á milli dagskráratriða.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess eru verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Verðlaunahafar frá upphafi:

1989 Stefán Hörður Grímsson

1990 Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson

1991 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1992 Þorsteinn frá Hamri og Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson

1993 Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson

1994 Vigdís Grímsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir

1995 Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead

1996 Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason

1997 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson

1998 Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson

1999 Andri Snær Magnason og Páll Valsson

2000 Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson

2001 Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

2002 Ingibjörg Haraldsdóttir og Pétur M. Jónasson, Páll Hersteinsson,

2003 Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson

2004 Auður Jónsdóttir og Halldór Guðmundsson

2005 Jón Kalman Stefánsson og Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Jóhannessen, Silja Aðalsteinsdóttir, Eiríkur Þorláksson

2006 Ólafur Jóhann Ólafsson og Andri Snær Magnason

2007 Sigurður Pálsson og Þorsteinn Þorsteinsson

2008 Einar Kárason og Þorvaldur Kristinsson

2009 Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson

2010 Gerður Kristný og Helgi Hallgrímsson

2011 Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson

2012 Eiríkur Örn Norðdahl og Gunnar F. Guðmundsson

2013 Guðbjörg Kristjánsdóttir, Andri Snær Magnason og Sjón

2014 Snorri Baldursson, Bryndís Björgvinsdóttir og Ófeigur Sigurðsson

2015 Gunnar Þór Bjarnason, Gunnar Helgason og Einar Már Guðmundsson,

2016 Ragnar Axelsson, Hildur Knútsdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir

2017 Unnur Þóra Jökulsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Rakel Helmsdal og Kalle Güettler og Kristín Eiríksdóttir.

2018 Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jón Baldur Hlíðberg, Sigrún Eldjárn og Hallgrímur Helgason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert