Upplýsingar á kínversku í vinnslu

Ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Upplýsingum/einblöðungum er varða smitgát vegna kórónaveirunnar hefur verið dreift á ensku og íslensku til ferðamanna á ferð um Keflavíkurflugvöll og aðra alþjóðaflugvelli hérlendis. Kínversk útgáfa er í vinnslu.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Veirusmit hafa verið staðfest hjá um 4.587 einstaklingum og um 106 einstaklingar hafa látist, að því er segir í skýrslunni. Auk þess eru upplýsingar um alvarleg veikindi hjá fjölda einstaklinga. Flest­ir þeirra sem hafa lát­ist eru frá Hubei-héraði í Kína en veir­an kom upp í borg­inni Wu­h­an í héraðinu.

Undirbúningur er hafinn að dreifingu SMS-skilaboða á íslensku, ensku og kínversku til ferðamanna þar sem eru veittar upplýsingar um hvert á að leita.

Fundur er fyrirhugaður á morgun með starfsfólki Keflavíkurflugvallar og verður upplýsingum komið áfram til annarra flugvalla.

Egilsstaðaflugvöllur.
Egilsstaðaflugvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að veiran muni berast hingað til lands og því mikilvægt að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar sem mest hér á landi. Engar aðgerðir munu hins vegar tryggja að veiran berist ekki hingað til lands,“ segir í stöðuskýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert