Snjóflóðið féll í landslagsgildru

Björgunarsveitir við Móskarðshnúka í dag.
Björgunarsveitir við Móskarðshnúka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snjóflóðið sem féll á gönguleiðina á Móskarðshnúkum á fyrsta tímanum í dag með þeim afleiðingum að maður grófst undir var lítið flóð en féll í svokallaða landslagsgildru.

Þetta segir Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Sérfræðingar frá Veðurstofunni voru í gryfjutöku í Skálafelli þegar snjóflóðið féll og fóru svo á vettvang flóðsins þar sem slysið varð.

„Þetta er flekaflóð, alls ekki stórt. Þetta er bara lítið flóð sem fellur í mjög óheppilegum aðstæðum, það hrúgast í raun allur snjórinn ofan í þröngt gil. Þetta er það sem kallast landslagsgildra í þessum fræðum,“ útskýrir Óliver.

Gul snjóflóðaspá er á suðvesturhorni landsins, sem þýðir að nokkur hætta er á snjóflóðum. Að sögn Ólivers er til skoðunar að færa spána í appelsínugult.

Litlu flóðin geti líka verið hættuleg

„Það virðist vera að snjóalög séu svolítið óstöðug í vesturvísandi hlíðum, jafnvel mjög óstöðug. Það er mjög mikil umferð búin að vera af fólki á fjallaslóðum í góðu veðri og þetta eru fá flóð. Ástandið virðist vera óstöðugt en afmarkað.“

Aðspurður hvað fólk beri að varast ef það hyggst halda á fjöll segir Óliver sérstaklega mikilvægt að fylgjast með aðstæðum, forðast vesturvísandi hlíðar og landslagsgildrur.

„Það eru klárlega óstöðug snjóalög í þessum brekkum. Við búumst svo sem ekki við stórum flóðum en það eru litlu flóðin sem greinilega geta verið hættuleg.

Á annað hundrað manns tóku þátt í björgunaraðgerðum.
Á annað hundrað manns tóku þátt í björgunaraðgerðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert