Vilja dvelja lengur á Íslandi vegna veirunnar

Heilbrigðisstarfsmaður mælir hita manns á sjúkrahúsi Rauða krossins í kínversku …
Heilbrigðisstarfsmaður mælir hita manns á sjúkrahúsi Rauða krossins í kínversku borginni Wuhan. AFP

Sendiráð Kína á Íslandi hefur verið önnum kafið að undanförnu við upplýsingagjöf vegna kórónaveirunnar skæðu sem hefur orðið yfir 130 manns að bana.

Að sögn Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, hefur sendiráðið verið í nánu samstarfi við íslensk heilbrigðisyfirvöld, lögregluna, Rauða krossinn og fleiri aðila við að deila upplýsingum vegna stöðunnar sem er uppi.

„Vitaskuld höfum við aðstoðað okkar ríkisborgara hérna á Íslandi en sumir þeirra eru í fríi hérna,“ segir Jin og bætir við að sendiráðið geri sitt besta til að leysa úr þeirra vanda þeirra, en um 500 Kínverjar búa hérlendis. 

Kínverskir ferðamenn hafa sumir hverjir áhyggjur af því hvort þeir komist aftur til síns heima í Kína, enda hafa almenningssamgöngur víða legið niðri. Einnig hafa þeir óskað eftir aðstoð við að ná sambandi við skyldmenni sín í Kína.

Starfsmaður úðar sótthreinsandi efni í farþegarými flugvélar Thai Airlines til …
Starfsmaður úðar sótthreinsandi efni í farþegarými flugvélar Thai Airlines til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónaveirunnar. AFP

Vilja framlengja dvölina

Sumir vilja dvelja lengur á Íslandi vegna veirunnar og hefur sendiráðið reynt að veita þeim réttar upplýsingar í þeim efnum varðandi framlengingu vegabréfsáritunar. Um er að ræða fólk sem er frá svæðum þar sem veiran hefur valdið usla og segist Jin ekki hafa upplýsingar um hvort fólkið sé frá borginni Wuhan, þar sem upptök veirunnar eru sögð hafa átt sér stað, eða öðrum svæðum.

Athuga með Íslendinga í Kína

Sendiráðið er einnig að reyna að komast að því hvort Íslendingar séu staddir í Wuhan eða á nærliggjandi svæðum og verður þeim upplýsingum deilt með íslensku utanríkis- og heilbrigðisráðuneytunum og öðrum stofnunum. Engar upplýsingar hafa borist frá kínverskum stjórnvöldum vegna Íslendinga á þessum svæðum.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi.
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Getum unnið þetta stríð“

Jin hefur að sjálfsögðu miklar áhyggjur af stöðu mála en leggur áherslu á að kínversk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva útbreiðsu kórónaveirunnar, auk þess sem heilbrigðisstarfsfólk hefur staðið sig með prýði við að meðhöndla það fólk sem hefur sýkst. Jafnframt hefur upplýsingum verið deilt víða, meðal annars til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

„Það er hægt að koma í veg fyrir sjúkdóminn, hafa hemil á honum og lækna hann. Þrátt fyrir að fólk hafi látist af völdum hans þá hafa á sama tíma sífellt fleiri læknast og útskrifast af sjúkrahúsum. Við erum sannfærð um að við getum unnið þetta stríð,“ greinir sendiherrann frá.

Starfsmenn verksmiðju í kínverska héraðinu Yangzhou framleiða andlitsgrímur.
Starfsmenn verksmiðju í kínverska héraðinu Yangzhou framleiða andlitsgrímur. AFP

Nýársfríið framlengt 

Spurður hvernig andrúmsloftið er í Kína og hvort fólk sé ekki hrætt vegna útbreiðslu veirunnar segir Jin það fara eftir því hvar fólk er statt í landinu og hversu alvarlegt ástandið er þar. „Núna er nýársfrí hjá okkur. Ríkisstjórnin hefur hvatt fólk til að halda sig heima við og nýársfríið hefur verið framlengt um nokkra daga, eða til 2. febrúar. Margir hafa verið hræddir í einhvern tíma og óvissir um framtíðina en núna finnst mér fólk vera farið róast lítillega.“

Ferðamenn í Haukadal fagna hér gosi úr Strokki.
Ferðamenn í Haukadal fagna hér gosi úr Strokki. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vonast eftir breytingum með beinu flugi

Sendiherrann minnist á viðbrögð ferðaþjónustuaðila vegna afbókana Kínverja á ferðum til Íslands og áhrifum vegna þess.

Hann segir ástandið tímabundið og tengjast vinnu kínverskra stjórnvalda við að stöðva útbreiðslu veirunnar, meðal annars með því að draga úr ferðalögum fólks. Þegar ástandið í Kína lagast býst hann við breytingum til hins betra í ferðalögum á milli Íslands og Kína þegar beint flug á að hefjast á milli landanna í lok mars. „Þegar þetta verður að veruleika reikna ég með auknum fjölda kínverskra ferðamanna til Íslands,“ segir hann en um 99 þúsund Kínverjar heimsóttu Ísland á síðasta ári, sem þýðir að þeir voru fjórða fjölmennasta ferðamannaþjóðin hérlendis.

Farþegi á lestarstöð sem ferðast á milli Hong Kong og …
Farþegi á lestarstöð sem ferðast á milli Hong Kong og meginlands Kína við öllu búinn með sundgleraugu og andlitsgrímu. AFP

Kínverska millistéttin fjölmenn

Spurður hvernig hann útskýri þennan mikla áhuga Kínverja á Íslandi segir hann áhugavert að horfa til þess að á meðan ferðamönnum til Íslands frá öðrum löndum hefur fækkað hefur kínverskum ferðamönnum fjölgað, ef horft er fram hjá þeirri stöðu sem nú er uppi. Einstakt landslagið, norðurljósin, ævintýraferðir og spenningur fyrir nafninu Ísland draga ferðamennina hingað, að sögn Jin. „Flestir sem koma hingað eru mjög ánægðir með dvölina hér á Íslandi og segja öðrum frá því. Það hjálpar til við að koma Íslandi á framfæri í Kína.“

Einnig nefnir hann stærð kínversku millistéttarinnar, sem telur um 400 milljónir manna. „Þú getur rétt ímyndað þér ef aðeins lítið brot af þessum fjölda vill koma til Íslands þá getur það verið margt fólk. Það gæti ferðast til Íslands í mörg ár og þess vegna er ég svo bjartsýnn á framtíðina þegar kemur að kínverskum ferðamönnum á Íslandi,“ segir sendiherrann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert