Ákærður fyrir brot í nánu sambandi

Embætti héraðssaksóknara fer með málið.
Embætti héraðssaksóknara fer með málið. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir brot í nánu sambandi og kynferðisbrot með því að hafa hafa ráðist að þáverandi kærustu sinni með líkamlegu ofbeldi og hótunum, stórfelldum ærumeiðingum og með því að særa blygðunarsemi hennar. Átti atvikið sér stað í bifreið skammt utan Reykjavíkur.

Samkvæmt ákæru málsins sló maðurinn konuna ítrekað. Þá hótaði hann að drepa hana, afskræma hana og setja mynd af henni á samfélagsmiðla og lítillækka hana þar.

Til viðbótar við þær hótanir er maðurinn ákærður fyrir fjölmörg ummæli sem voru til þess fallin að særa blygðunarsemi konunnar, móðga hana og smána. Þannig sagði hann konuna ítrekað vera hóru, ógeðslega og að hún stundaði kynlíf gegn greiðslu.

Fram kemur í ákærunni að allt hafi þetta verið til þess fallið að ógna lífi, heilsu og velferð konunnar.

Maðurinn er auk þess ákærður fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot, en á heimili hans fannst hnúajárn með áföstu hnífsblaði, öxi, fimm kaststjörnur, kókaín, morfín, sterar og óþekkt hvítt efni.

Konan fer fram á 2,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert