„Dauðþreyttir“ eftir 50 km göngu

Piltarnir á leið í Hvalfjörðinn í dag.
Piltarnir á leið í Hvalfjörðinn í dag. Ljósmynd/Aðsend

Gönguferð fjögurra pilta frá Mosfellsbæ til Borgarness hófst upp úr klukkan átta í morgun og gekk allt eins og best verður á kosið.

Þegar blaðamaður ræddi við einn þeirra, Benjamín Heimisson, voru þeir á leiðinni í skóg við fossinn Glym, innst í Hvalfirði, þar sem þeir munu gista í tjaldi í nótt.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Við erum bara tveir núna en við vorum fjórir,“ segir Benjamín og á þar við að tveir úr hópnum keyrðu um átta kílómetra leið að Glym til að finna tjaldsvæði vegna þess að þeir voru með hælsæri og gátu ekki gengið lengra.

Fjórmenningarnir eru að safna fyrir fé til að styrkja föður Benjamíns sem greindist með krabbamein á fjórða stigi á dögunum. Þeim hefur tekist að safna 230 þúsund krónum en markmiðið var að ná 250 þúsundum.

Göngugarparnir stóðu sig vel í dag.
Göngugarparnir stóðu sig vel í dag. Ljósmynd/Aðsend

Mamma og pabbi kíkt á þá 

Piltarnir gengu um 50 kílómetra í dag en leiðin á milli bæjarfélaganna er um 100 kílómetrar. Reikna þeir því með því að ljúka ferðalaginu á morgun.

Þeir ganga í endurskinsvestum, með höfuðljós og á móti umferð til að þeir sjái bílana sem koma á móti. Að sögn Benjamíns hefur umferðin verið lítil í Hvalfirðinum, eða „svona einn bíll á klukkutíma“.

Enginn hefur komið og tekið þátt í göngunni með þeim en foreldrar þeirra hafa komið til að kanna hvort ekki sé allt í lagi og einnig gaukað að þeim mat.  

Er þetta ekki búið að vera erfitt?

„Jú, við erum alveg dauðþreyttir og getum ekki beðið eftir því að komast inn í tjald.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert