Kári er farinn að braggast

Kári er fæddur vorið 2019, en heimkynni hringanóra eru á …
Kári er fæddur vorið 2019, en heimkynni hringanóra eru á og við ísröndina norður af landinu. Ljósmynd/Húsdýragarðurinn

Hringanórinn Kári sem lögreglan á Suðurnesjum fann í slippnum í Njarðvík og fór með Húsdýragarðinn fyrir nokkrum vikum er farinn að braggast. 

Í tilkynningu á vef Húsdýragarðsins segir að hringanórinn hafi verið með sýkingu í auga og illa haldinn af næringarskorti, auk þess sem rannsóknir leiddu í ljós að hann var sýktur af sníkjudýrum, m.a.a lungnaþráðormi sem ekki hefur fundist áður hér á landi.

Kári er fæddur vorið 2019, en heimkynni hringanóra eru á og við ísröndina norður af landinu. 

Vonandi hægt að sleppa honum aftur

Ef heldur áfram sem horfir og Kári heldur áfram að þyngjast hratt verður vonandi hægt að sleppa honum aftur, að því er segir í tilkynningu Húsdýragarðsins. Í því sambandi verði þó að horfa til þess að þrátt fyrir að aukin þyngd og betri heilsa auki lífslíkur í náttúrunni dragi lengri dvöl hans í haldi manna úr líkum á að hann geti bjargað sér í náttúrunni.

Það er því mikilvægt að finna jafnvægi á milli þessara þátta til þess að tryggja sem besta möguleika Kára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert