Frumvarpi um nýtingu orkuauðlinda frestað

Samtökin höfðu vísað í þingmálaskrá yfirstandandi þings, þar sem boðað …
Samtökin höfðu vísað í þingmálaskrá yfirstandandi þings, þar sem boðað var frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða nýtingu orkuauðlinda á opinberu forræði. mbl.is/Sigurður Bogi

Upp hafa komið rökstuddar efasemdir um að tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um þjónustu á innri markaðnum og til vara grein EES-samningsins um staðfesturétt eigi við um raforkuframleiðslu.

Því hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa verður fengin fyrir því hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenska ríkinu að þessu leyti. Frumvarpið verður því ekki lagt fyrir á Alþingi á þessum vetri.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn frá félagasamtökunum Frjálst land þar sem spurt var hvort fjárfestar í Evrópusambandinu myndu sitja við sama borð og íslensk fyrirtæki í almannaeigu við úthlutun nýtingarréttar fallvatna og jarðvarma og við fyrirskipaða reglulega endurnýjun nýtingar orkuauðlinda, og greint er frá á Viljanum.

Svar forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Frjáls lands.
Svar forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Frjáls lands.

Samtökin höfðu vísað í þingmálaskrá yfirstandandi þings, þar sem boðað var frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða nýtingu orkuauðlinda á opinberu forræði.

Sigurbjörn Svavarsson hjá Frjálsu landi segir merkilegt að eftir að fullbúið frumvarp sé klárt og að baki séu margra ára bréfaskriftir íslenskra stjórnvalda og hótanir ESA skuli þó rökstuddar efasemdir vera það sterkar að málið hafi verið dregið til baka á síðustu stundu.

„Líklegra er þó að um pólitíska ákvörðun sé að ræða, annaðhvort til að draga málið á langinn og forðast óþægileg átök um málið svo stuttu fyrir kosningar, eða, sem ólíklegra er, að íslensk stjórnvöld hafi tekið ákvörðum um, eins og Norðmenn, að standa gegn túlkun ESA og ganga gegn hugsanlegum dómi EFTA-dómstólsins síðar. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu málsins,“ segir hann í samtali við Viljann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert