Aukin sjálfvirkni framar fjölgun starfsfólks

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aukin mönnun veirufræðideildar er ekki það sem er mest áríðandi ef til þess kemur að taka sýni hjá komufarþegum. Þetta kemur fram í svari forstöðumanns rannsóknarþjónustu Landspítalans. 

Landspítalinn vinnur samkvæmt viðbragðsáætlun eins og áður að sögn Maríönnu Garðarsdóttur, forstöðumanns rannsóknarþjónustu. Rannsóknarþjónustan bíður eftir fyrirmælum frá heilbrigðisráðherra varðandi frekara framhald, í kjölfar álits frá sóttvarnarlækni. 

Aukin mönnun ekki mest áríðandi 

Fram hefur komið að sýkla- og veirufræðideild spítalans sé ekki í stakk búin til að greina nema 500 veirusýni úr komufarþegum á dag og til að auka afkastagetu þarf að bæta tækjabúnað, mönnun og aðstöðu. 

Aðspurð hvort spítalinn sé nú þegar að horfa fram á að þurfa að ráða fleiri starfsmenn á veirufræðideild segir Maríanna mönnun deildarinnar ekki vera mest áríðandi, heldur aukna sjálfvirkni í tækjum og hugbúnaðarlausnum sem bæði eykur afköst og öryggi. 

„Mönnun var ekki stærsti takmarkandi þátturinn í COVID-19-faraldrinum þótt álagið hafi vissulega verið mikið, en þó var bætt við starfsemina bæði með mönnun frá sýklafræðihluta deildarinnar og úr bakvarðasveit.“

Þjálfun tekur 1 mánuð

Aðspurð hve langan tíma það taki að þjálfa nýja starfsmenn segir Maríanna það misjafnt. 

„Þjálfun starfsmanna á veirufræðihluta sýkla- og veirufræðideildar tekur almennt um 1 mánuð í helstu störf er tengjast greiningum á veirusýnum en sérhæfðari störf aðeins lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert