Enn óvissa með rannsókn á fjárfestingaleið

Seðlabanki Íslands leggst ekki sérstaklega gegn því að fram fari …
Seðlabanki Íslands leggst ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á fjárfestingaleið bankans. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þingsályktunartillaga um rannsókn á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands var til umræðu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. Formaður nefndarinnar segir framhald tillögunnar ekki liggja fyrir. 

Sautján þing­menn úr röðum Pírata, Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Viðreisn­ar lögðu á síðasta ári fram tillögu til þings­álykt­un­ar um að gerð verði rann­sókn á fjár­fest­ing­a­leið Seðlabanka Íslands. Farið er fram á að þriggja manna nefnd, sem forseti Alþingis skipar, verði falin rann­sókn­in.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir í samtali við mbl.is að óvíst sé hvenær tillagan fari frá nefndinni. 

„Það er algjörlega óvíst hvort það verði frekari óskir um gestakomur frá nefndarmönnum og hvort meirihlutinn sé tilbúinn að hleypa þessu máli út úr nefnd. Ég legg mikla áherslu á að klára þetta en eins og er með nefndarstarf þá sitja mál minnihlutans oft föst inni í nefndum, sér í lagi mál sem meirihlutanum finnst óþægilegt að takast á við í þingsal,“ segir Þórhildur. 

„Þetta er auðvitað tillaga sem kemur frá stjórnarandstöðuþingmanni þannig að ég hugsa að forgangurinn á að hleypa því út sé ekkert endilega hár. En ég auðvitað legg mikla áherslu á að koma þessu áfram,“ segir Þórhildur.

„Við höfum verið að fá talsvert af gestum fyrir nefndina og það gerast auðvitað þær stórfréttir að Seðlabankinn setur sig ekki á móti rannsókn og skattrannsóknarstjóri ekki heldur,“ segir Þórhildur og vísar þar til umsagna SÍ og skattrannsóknarstjóra við ályktunina.

Fram kemur í umsögn SÍ að bankinn leggist „ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á flutningi fjár til landsins á grundvelli gjaldeyrisútboða Seðlabankans, eða nýfjárfestingar, telji þingið líklegt að slík rannsókn bæti einhverju við þá rannsókn sem þegar hefur farið fram á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra“. Telji bankinn það þó ekki líklegt. 

Umsögn Seðlabanka Íslands

Umsögn skattrannsóknarstjóra ríkisins

Umsögn Siðfræðistofnunar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert