Enn óvíst hvernig þingstörfum verður háttað

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á í samtali við formenn …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á í samtali við formenn flokkana um hvernig þingstörfum verður háttað eftir að núgildandi starfsáætlun lýkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Menn hafa skilning á því að óvissan í ríkisfjármálum og efnahagsmálunum er svo mikil að það þarf að búa til nýja tímalínu sem snýr að fjármálastefnu, fjármálaáætlun og sjálfu fjárlagafrumvarpinu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is.

Formenn þeirra flokka sem eiga sæti funduðu í gær og aftur í dag þar sem rætt hefur verið að halda þinghaldi áfram fram á haust með hléi. Þá hefur verið talað um að svokallaður þingstubbur fari fram í lok ágúst eða byrjun september.

Steingrímur segir að vissulega séu skiptar skoðanir á því hvernig vænlegast sé að haga þingstörfum en það sé þó almennur skilningur á því í öllum flokkum að bregðast þurfi við því óvenjulega ástandi sem nú ríkir með einhverjum hætti.

Fjármálastefna mögulega kynnt á þingstubbi

Frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingu á lögum um þingsköp hefur verið dreift en þar er gert ráð fyrir því að næsta löggjafarþingi verði frestað til 1. október. Sama dag muni yfirstandandi löggjafarþingi ljúka.

Núgildandi starfsáætlun þingsins gildir til 24. júní og Steingrímur telur ekki ástæðu til að endurskoða hana sem slíka en gerir þó ráð fyrir því að þingið muni þurfa að koma saman síðsumars vegna ráðstafana sem þarf að gera vegna kórónuveirufaraldursins.

Einnig hefur verið rætt á fundum formanna flokkanna að fjármálastefna yrði kynnt á síðsumarsþingi, eða þingstubbi, og hún yrði rædd áður en fjármálaáætlun og fjárlög kæmu fram. Það skýrist á næstunni segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert