Hitatölur síga niður á við um helgina

Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er björtu veðri og hita að 17 stigum á Norðausturlandi í dag og á morgun er spáð allt að 20 stiga hita þar. Spáin hefur breyst lítið fyrir helgina, væta fyrir sunnan en þurrt norðaustan til. Hitatölur síga niður á við um helgina því svalari loftmassi er á leið til landsins.

„Í dag er útlit fyrir sunnangolu eða -kalda. Súld eða rigning verður viðloðandi sunnan- og vestanlands með hita á bilinu 8 til 12 stig. Í norðausturfjórðungi landsins rofar til með björtu veðri og hita að 17 stigum.

Bætir í sunnanáttina á morgun, þá má búast við strekkingi nokkuð víða. Áfram væta af og til um landið sunnan- og vestanvert. Þurrt og bjart norðaustanlands og hiti þar gæti náð 20 stigum, í fyrsta skipti á þessu ári og verður spennandi að sjá hvort sú spá rætist.

Ekki er að sjá neinar meiri háttar breytingar í spánni fyrir helgina (laugardag og sunnudag). Áttin áfram suðlæg og líkur á vætu, en áfram þurrt norðaustan til. Þó ber að geta þess að hitatölur síga niður á við, því svalari loftmassi berst yfir landið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur næstu daga

Suðlæg átt 5-13 m/s í dag, en 8-15 á morgun. Lengst af súld eða rigning sunnan- og vestanlands með hita 8 til 13 stig. Bjartviðri um landið norðaustanvert og hiti að 17 stigum, en allt að 20 stig á þeim slóðum á morgun.

Á föstudag:

Sunnan 8-15 m/s og súld eða rigning sunnan- og vestanlands, en bjart með köflum norðaustan til á landinu. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á laugardag:
Sunnan 5-13 og smáskúrir, en bjartviðri norðaustanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag (hvítasunnudag):
Suðvestan 5-10 og skúrir, en þurrt og bjart á austanverðu landinu. Hiti 7 til 15 stig, mildast á Austurlandi.

Á mánudag (annan í hvítasunnu) og þriðjudag:
Fremur hæg suðvestlæg átt og stöku skúrir, en yfirleitt þurrt austanlands. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:
Vestlæg átt og súld eða rigning, en úrkomulítið á Suðausturlandi og Austfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert