„Vanvirðing og miskunnarleysi“

Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson hafa verið áberandi í …
Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson hafa verið áberandi í verkalýðsforystunni frá því að Sólveig tók við formennsku í Eflingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrv. bókari Eflingar stéttarfélags, fór hörðum orðum um núverandi stjórnendur stéttarfélagsins og gagnrýndi formann Eflingar sérstaklega í ræðu sem hún flutti á aðalfundi Eflingar 20. maí sl.

Elín er ein þeirra fyrrverandi starfsmanna Eflingar sem hafa átt í deilum við núverandi stjórn félagsins og segjast hafa verið reknir eða verið flæmdir í burtu frá félaginu vegna framkomu nýrrar forystu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist í gær ekki vilja tjá sig um ræðu Elínar.

„Allt í boði valdhafa“

Elín, sem var frá störfum í 18 mánuði vegna veikinda, sagðist í upphafi ræðu sinnar, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, hafa náð bata og að læknir hennar hefði sagt hana tilbúna að snúa aftur til starfa. „Sendi lögmaður minn tilkynningu þann 9. mars síðastliðinn til Eflingar um endurkomu mína til starfa. Þann 12. mars 2020, sem er afmælisdagur Alþýðusambandsins, fékk ég svarbréf frá Lögmannsstofunni Mandat þar sem lögmaður stofunnar segir mér upp störfum f.h. Eflingar frá og með næstu mánaðamótum með sex mánaða uppsagnarfresti, ekki er óskað eftir vinnuframframlagi frá mér á uppsagnafresti. Allt í boði valdhafa Eflingar og það með upplognum sökum og ætluðum gjörðum,“ sagði hún.

Elín sagðist hafa verið viðloðandi verkalýðshreyfinguna í hátt í 40 ár og Efling verið góður vinnustaður en nú væri öldin önnur. „Ég hef varið meirihluta starfsævinnar hjá hreyfingunni þegar mér er kastað út af vinnustaðnum með þeim afleiðingum að starfskjör mín síðustu árin og lífeyriskjör eru skert. Hver gerir svona? Jú, þetta er til hjá slæmum atvinnurekendum. Efling er nú orðin fyrirmynd verstu atvinnurekenda. Þvílík vanvirðing og miskunnarleysi þeirra sem hér ráða,“ sagði hún og kvaðst fordæma vinnubrögð núverandi stjórnenda, að því er fram kemur í umfjöllun um mál  þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert