Lögreglan muni sýna samstöðu

Samstöðufundurinn fer fram á Austurvelli.
Samstöðufundurinn fer fram á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samstöðufundur með mótmælendum í Bandaríkjunum fer fram á Austurvelli á morgun. Fjöldi fólks hefur boðað komu sína og er fólk hvatt til að gæta að sóttvarnartakmörkunum. 

Fundurinn hefst með upplestri á nöfnum svartra Bandaríkjamanna sem hafa látist eftir samskipti við lögreglu. Þá tekur við 8 mínútna og 46 sekúnda þögn, en mótmælin í Bandaríkjunum hófust eftir að lögregluþjónn í Minneapolis kraup á hálsi George Floyd í 8 mínútur og 46 sekúndur með þeim afleiðingum að Floyd kafnaði. 

Aðstandendur fundarins biðla til gesta að gæta að fjarlægðartakmörkunum eftir því sem kostur er. Um 2.000 manns hafa sagst ætla að mæta á fundinn og aðrir 1.800 hafa lýst yfir áhuga sínum, en samkomutakmarkanir miða við 200 manns.

Höfðu sjálf frumkvæði

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir aðstandendur fundarins hafa haft samband við lögreglu að fyrra bragði.

„Við höfum rætt við aðstandendur, þau höfðu sjálf frumkvæði að því að hafa samband við lögregluna og ætla að reyna að sjá til þess að það verði eins mikið pláss og hægt er fyrir fólk. Við höfum verið í góðu sambandi við þetta ágæta fólk sem skipuleggur þennan viðburð,“ segir Ásgeir. 

Hann segir lögregluna verða á staðnum á morgun, fyrst og fremst til að sýna samstöðu. 

„Við verðum þarna til að aðstoða en frekar, og fyrst og fremst, til að standa með þeim. Það verður okkar hlutverk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert