Ekkert kvartað yfir sýnatökugjaldinu

Gjaldtaka fyrir sýnatöku á landamærum landsins hófst í morgun.
Gjaldtaka fyrir sýnatöku á landamærum landsins hófst í morgun. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Það sem sem hefur helst komið á óvart er hversu vel hefur gengið þrátt fyrir lítinn tíma sem fékkst til þess að vinna verkefnið. Það sem einkennir þetta verkefni er hvað það þurfti rosalega fjölbreytta þekkingu úr öllum deildum,“ segir Guðjón Vilhelmsson, forstöðumaður heilbrigðislausnasviðs Origo, í samtali við mbl.is.

Origo hannaði hugbúnaðinn fyrir skimunarverkefnið á landamærum Íslands frá grunni og lagði að auki til tölvubúnað. Gjaldtaka fyrir skimanir hófst í morgun en hún hefur verið gjaldfrjáls hingað til.

„Við hönnuðum skráninguna fyrir farþegana og viðmótið fyrir starfsfólkið sem sinnir sýnatökunni sem og miðlægan grunn sem heldur utan um skráningar og tölfræði,“ útskýrir Guðjón.

Reyndu að sjá öll tilvik fyrir

Eins og gefur að skilja þurfti að huga að ýmsu við vinnuna og segir Guðjón að reynt hafi verið að ímynda sér alla þá hluti sem geta komið upp á flugvelli þegar fjöldi fólks fer þar í gegn. „Það hefur töluverður tími farið í að slípa til þegar kemur að undantekningartilvikum eins og þegar einhver týnir veskinu sínu eða síma.“

Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausnasviðs Origo.
Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausnasviðs Origo. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Í ljósi þess að gjaldtaka hófst í dag og hversu mörgum farþegum von var á mátti búast við því að einhverjir vankantar á ferlinu kæmu í ljós. Dagurinn gekk hins vegar alveg vandræðalaust fyrir sig að sögn Guðjóns.

„Það lentu margar flugvélar síðdegis en það gekk mjög vel líkt og í morgun. Stór hluti farþega var búinn að forskrá sig og gat því farið beint í sýnatöku. Það gekk svo vandræðalaust fyrir sig hjá hinum sem voru ekki búnir að forskrá sig eða áttu eftir að greiða,“ segir Guðjón.

„Ég varð ekki var við það,“ segir Guðjón spurður hvort að einhverjir hafa kvartað yfir sýnatökugjaldinu sem er nokkuð lægra en upphaflega var áætlað og er 11.000 krónur í staðinn fyrir 15.000 krónur. Ef farþegar greiða fyrirfram er gjaldið aftur á móti 9.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert