Birgir hefur talað mest allra

Birgir Þórarinsson, ræðukóngur Alþingis, í ræðustól Alþingis. Hér ræðir hann …
Birgir Þórarinsson, ræðukóngur Alþingis, í ræðustól Alþingis. Hér ræðir hann 3. orkupakkann í fyrra, en á þessu þingi héldu þingmenn Miðflokksins uppi málþófi þegar fjallað var um innviði í samgöngum, sem kennt er við borgarlínu. Skjáskot/Alþingi

Birgir Þórarinsson, alþingismaður Miðflokksins, hefur talað lengst allra á 150. löggjafarþinginu, sem frestað var aðfaranótt þriðjudags. Birgir hefur talað í tæpar 30 klukkustundir. Birgir var ræðukóngur 149. löggjafarþingsins og talaði þá í 41 klukkustund.

Alþingi kom saman 10. september sl. og kemur saman að nýju í lok ágúst og mun þá m.a. ræða fjármálastefnu til næstu ára. Næsta reglulegt Alþingi, 151. löggjafarþingið, verður svo sett 1. október í haust. Er það nokkru seinna en venjulega, en þingskaparlögin gera ráð fyrir að nýtt þing komi saman annan þriðjudag í september. Þessi breyting er gerð vegna heimsfaraldurs COVID-19 og óvissu í efnahagsmálum.

Að venju fylgir hér með listi yfir þá 10 alþingismenn sem lengst hafa talað á 150. þinginu. Röðin kann að breytast eitthvað þegar þingstubbnum lýkur næsta haust. Hins vegar má teljast ólíklegt að Birgi Þórarinssyni verði haggað úr 1. sætinu. Birgir steig 408 sinnum í ræðustólinn í vetur og flutti 157 ræður og gerði 251 athugasemd (andsvör).

Guðmundur Ingi var í efsta sætinu lengi fram eftir vetri

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, var lengi vel í efsta sætinu en Birgir seig fram úr á lokasprettinum. Var það ekki síst vegna þess að þingmenn Miðflokksins efndu til málþófs í nýliðnum júní um uppbyggingu samgönguinnviða (borgarlínu) og var þáttur Birgis drjúgur í þeim umræðum. Hann var sömuleiðis ötull í málþófi Miðflokksmanna um 3. orkupakkann í fyrra, sem skilaði honum í efsta sætið.

Fyrrverandi ræðukóngur, Björn Leví Gunnarsson Pírati, er í 3. sætinu. Hann fór 507 sinnum í ræðustólinn, jafnoft og Guðmundur Ingi. Aðeins ein kona er á lista yfir 10 efstu, Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu. Á 149. þinginu var engin kona á „topp 10“ en Inga Sæland, Flokki fólksins, var nálægt því líkt og í vetur. Bjarni Benediktsson er eini ráðherrann sem kemst á listann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert