Eiga sanngjarna kröfu um stuðning

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst hafa skilning á erfiðri stöðu þeirra …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst hafa skilning á erfiðri stöðu þeirra sem reka skemmtistaði. „Við þurfum bara aðeins að meta það hvað væri sanngjarnt og eðlilegt að gera,“ segir hann. Samsett mynd/mbl.is

Það er erfitt að standa af sér árásir frá lánadrottnum með litlar tekjur, sögðu eigendur b5 í Bankastræti í viðtali í Morgunblaðinu í gærmorgun. Enda þótt allir rekstraraðilar í miðbænum eigi ekki endilega í erjum við lánardrottna sína og leigusala, er ljóst að róðurinn er verulega þungur hjá þeim flestum. 

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir í samtali við mbl.is að hann hafi skilning á að staðan sé erfið. Hvort gripið verði til sérstakra aðgerða til að aðstoða þessa rekstraraðila er óljóst. 

Skemmtistaðir reiða sig á viðskipti sem hefjast af fullum þunga eftir miðnætti og þá er sérlega óheppilegt að ekki megi vera opið lengur en til ellefu á kvöldin. Og enn harðnar í ári, því nú blasir við að ástandið muni dragast á langinn og djammið halda áfram inni á heimilum landsins, og jafnvel veislusölum, sem mega halda veislur til þrjú á næturnar.

Bjarni, aðspurður hvort þessir aðilar eigi rétt á stuðningi vegna sérstaklega erfiðrar stöðu: „Við þurfum bara aðeins að meta það hvað væri sanngjarnt og eðlilegt að gera. Líkt og átti við með lokunarstyrkina er það í mínum huga sanngirnismál að þeir sem þurfa að sæta opinberum fyrirmælum um að loka rekstrinum eiga að mínu áliti sanngjarna kröfu um einhvern stuðning vegna þess.“

Ólöglegt er fyrir skemmtistaði að hafa opið til lengur en …
Ólöglegt er fyrir skemmtistaði að hafa opið til lengur en ellefu á kvöldin í miðbænum. Veislusali má þó leigja til þrjú um morgun. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Skilningur á að þetta geti reynst mörgum erfitt

Bjarni segir þó að þegar hafi verið veittur stuðningur með margvíslegum hætti. Gjaldfrestir, rekstrarlán með ríkisábyrgð, hlutabótaleið þar sem ríkið greiðir launakostnað fyrirtækja og loks lokunarstyrkir fyrir þá sem áttu rétt á þeim. 

„Þannig að við höfum verið að gera ýmislegt en ég hef alveg skilning á að þetta getur reynst mörgum erfitt og þess vegna skiptir máli að við stöndum saman um að slá niður útbreiðslu veirunnar þegar hún birtist aftur í samfélaginu,“ segir Bjarni. 

Eigendur b5 lýsa í fyrrnefndu viðtali að fyrir kórónuveiru hafi þeir rekið blómstrandi fyrirtæki. „Við eigendur höfum þurrausið sjóði okkar til að halda því gangandi en við getum ekki meir. Þær þokukenndu upplýsingar sem við fáum og óvissuástand sem við búum við gera það að verkum að við höldum þetta ekki út lengur,“ segir Þórður Ágústsson, einn þeirra.

Eina vissan þessa stundina er að auglýsing sóttvarnalæknis um að skemmtistaðir megi ekki vera með opið til lengur en ellefu hefur verið framlengd um þrjár vikur frá áætluðum breytingardegi, 13. júlí. Þetta ástand mun því vara fram í ágúst. Vonir stóðu til að breyta mætti afgreiðslutímanum í júlí en svo kom upp vísir að hópsýkingu, sem setti nokkuð strik í reikning veirunnar hér á landi en enn stærra strik í reikning veitingamannanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert