Skjálfti 3,6 að stærð norður af Gjögurtá

Grjóthrun úr Gjögurtánni hefur fylgt jarðskjálftum í hrinunni.
Grjóthrun úr Gjögurtánni hefur fylgt jarðskjálftum í hrinunni. Ljósmynd/Sigurgeir Haraldsson

Jarðskjálfti af stærðinni 3,6 varð klukkan 19:20 í kvöld, um 17 kílómetra norðvestur af Gjögurtá. Þetta er stærsti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu síðan 27. júní þegar skjálfti af stærðinni 4,1 stig varð.

Fimm tilkynningar hafa borist Veðurstofu Íslands um að skjálftinn hafi fundist og komu þær allar frá Ólafsfirði.

Síðan skjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar hófst 19. júní hafa tæplega tíu þúsund skjálftar mælst.

„Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett um 9600 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði. Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða,“ segir í athugasemdum jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands.

Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert