Vinnuslys í Hafnarfirði

Lögregla hafði í nógu að snúast í dag.
Lögregla hafði í nógu að snúast í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilkynnt var um vinnuslys í póstnúmeri 221 í Hafnarfirði um klukkan hálftvö í dag. Maður hafði fengið stálplötu á fótinn við vinnu og var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Ýmissa grasa kennir í dagbókinni. Á sama klukkutímanum var tilkynnt um tvö innbrot í miðborg og vesturbæ Reykjavíkur. Annað í heimahús í 107 en hitt í bifreið í miðborginni. Þá var tilkynnt um slys á rafmagnshlaupahjóli í Hlíðahverfi en það var minniháttar og þurfti viðkomandi hvorki aðstoð lögreglu né sjúkraliðs.

Í Hafnarfirði ók maður á skjólvegg við heimahús laust eftir hádegi. Þá var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi í bænum og var lögregla kvödd til, en maðurinn gekk sína leið eftir samtal við lögreglu.

Á Suðurlandsvegi var ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur í hádeginu. Þá var tilkynnt um hnupl í verslun í Smáralind um klukkan þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert