Helmingur starfsfólksins ekki í vinnu

Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir á göngudeild COVID-19 á Landspítalanum.
Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir á göngudeild COVID-19 á Landspítalanum.

Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir á göngudeild COVID-19 á Landspítalanum, segir að fólkinu með virk smit á landinu heilsist öllu vel þessa stundina. Enginn er inniliggjandi af þeim tíu virku smitum sem vitað er af á landinu. Ragnar segir að ef faraldur skellur á af fullum þunga sé deildin í ástandi til að takast á við það. Það gæti þó orðið tvísýnt enda helmingur starfsfólks í sumarfríi. 

Ragnar segir gott að í bígerð sé að „girða fyrir aðalglufuna“ sem var sú að Íslendingum var hleypt inn í landið eftir eina sýnatöku við landamærin, en komið hefur fram að nú standi til að Íslendingar fari í tvær skimanir áður en þeim er hleypt út í samfélagið eftir utanlandsferð.

„Það er bara mjög gott og enn sem komið er eru þetta rólegheit hjá okkur en helmingurinn af starfsliðinu er samt í sumarfríi. Þannig að ef það kemur faraldur þá er helmingur fólksins hérna ekki í vinnu. Við vorum ekki höfð með í ráðum þegar ákveðið var að opna landamærin og það er engin sérstök stemning hér á meðal starfsfólks að fara að glíma við þetta vandamál strax aftur,” segir Ragnar.

Honum og starfsfólki hans var einfaldlega gert kunnugt um fyrirhugað fyrirkomulag við skimun á landamærum, án þess að það hafi verið borið undir þau fyrir fram. „Það var gríðarlegur samtakamáttur hérna seinast og allir lögðust á eitt, en maður finnur ekki alveg sama andann í þetta skiptið. Ég held að við hefðum kosið að fá smá andrými, auðvitað hefði líka átt að vera búið að semja við heilbrigðisstéttir,“ segir Ragnar. Ósamið er við lækna og launaliður í samningi hjúkrunarfræðinga er á leið í gerðardóm þar sem ríki og stéttarfélag komust ekki að samkomulagi um launahækkun.

Sýnatökubásar á Keflavíkurflugvelli.
Sýnatökubásar á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Barn á öðru ári smitað

Mjög stór hópur fólks er í sóttkví á Íslandi, 440 manns. Ragnar segir ljóst að einhverijr í þeim hópi muni reynast smitaðir en bindur vonir við að smitin séu ekki mikið útbreiddari en það. „En við sjáum samt úti í heimi, að þessi faraldur er ekki nærri því búinn. Ég held að það sé ímyndun eða óskhyggja að hægt sé að knýja áfram ferðaþjónustu hér á landi einmitt núna. Það er fjarstæðukennt og dýru verði keypt,“ segir hann.

Fram hefur komið að á meðal þeirra sem eru með virkt smit er barn á öðru ári. Ragnar bendir í því samhengi á að fjöldi barna hafi smitast af veirunni þegar fyrsta bylgjan reið yfir, svo sem má einnig lesa um á covid.is.

„Eins og komið hefur fram áður veikjast börn minna en fullorðnir og börnunum sem veiktust síðast farnaðist öllum vel,“ segir Ragnar.

Að öðru leyti eru langflestir smitaðra á landinu núna ungt fólk, sem Ragnar segir að sé tölfræði sem segi ekki til um faraldurinn, heldur sé einfaldlega bundin við aðstæður hér á landi. Ungt fólk kom smitað heim og hitti annað ungt fólk, með sama hætti og flestir sem smituðust í fyrri bylgju faraldursins voru á miðjum aldri. Þeir höfðu verið á skíðasvæðum og komu svo heim og hittu aðra á sínum aldri, þó að smitin hafi líka teygt sig upp og niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert