Sendir barnaheimili 2,6 milljónir

Hrafn hreinsaði til í fjörunni og kvaðst mundu gera það …
Hrafn hreinsaði til í fjörunni og kvaðst mundu gera það áfram í mörg ár ef söfnunin næði takmarki sínu. Ljósmynd/Aðsend

„Húrra fyrir ykkur kæru vinir!“ hrópar Hrafn Jökulsson í Facebook-færslu þar sem hann greinir frá því að hafa safnað 125.000 dönskum krónum fyrir grænlenskt barnaheimili í Tasiilaq. Það er andvirði um 2,6 milljóna íslenskra króna.

Söfnuninni hratt hann af stað í kveðjuskyni við skákfélagið Hrókinn, sem kom á sínum tíma mjög að skákstarfi grænlenskra ungmenna. Markmiðið var að safna 125.000 dönskum krónum fyrir þetta barnaheimili og Hrafn hét því um leið og það tækist, myndi hann verja næstu fjórum árum lífs síns í að hreinsa til í Kolgrafarvík í Árneshreppi á Ströndum.

Á nokkrum vikum í júní lögðu 289 einstaklingar og fjögur fyrirtæki málefninu leið, sem Hrafn segir ótrúlegan árangur, ekki síst í ljósi þess að „kosningabaráttan“ fór aðeins fram á Facebook. Heildarmarkmiðið var að safna þremur milljónum, sem Hrafn segir ljóst að muni nást. „Og það þýðir að fleiri grænlensk börn munu njóta góðs af.“

Enn er söfnunin að fikra sig að hinu endanlegu markmiði og að sögn er enn tekið við framlögum: Söfn­un­ar­reikn­ing­ur KALAK: 0322-13-100141; kennitala: 430394-2239.

2,6 milljónir til Barnaheimilis Margrétar prinsessu í Tasiilaq.
2,6 milljónir til Barnaheimilis Margrétar prinsessu í Tasiilaq. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert