Tveir dómarar við Hæstarétt hætta

Hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson hafa sótt um lausn frá embætti. Þetta var kynnt á ríkisstjórnarfundi í dag.

Þau verða fimmtu dómararnir við réttinn til að hætta á innan við einu ári, en þeir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson fengu lausn frá embætti 1. október og Helgi Ingólfur Jónsson óskaði eftir lausn í janúar.

Greta er fædd árið 1954 og varð 66 í mars. Hún starfaði hjá yfirfógeta í Reykjavík og var settur borgarfógeti áður en hún hóf störf við Héraðsdóm Reykjavíkur, fyrst sem dómarafulltrúi og síðar dómari. Árið 2011 var hún skipuð í Hæstarétt.

Þorgeir er núverandi forseti Hæstaréttar. Hann er fæddur árið 1952 og hefur verið dómari við réttinn frá því árið 2011. Hann starfaði við embætti yfirborgardómarans í Reykjavík áður en hann varð aðstoðarmaður hæstaréttardómara og síðar borgardómari í Reykjavík. Þá var hann prófessor við Háskóla Íslands og dómari við EFTA-dómstólinn frá 2003-2011.

Greta og Þorgeir voru elstu dómarar við réttinn, en eftir að þau láta af störfum verður Ingveldur Einarsdóttir sú elsta, en hún er fædd árið 1959.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert